Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:42:21 (1144)

1999-11-04 14:42:21# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar húsbréfin þá var leitað álits Seðlabankans sem lagðist ekki gegn þessari hækkun. Að öðru leyti heyrir þetta mál, eins og hv. þm. veit, undir annan ráðherra, félmrh. Við ræðum þessi mál væntanlega eins og við höfum gert á vettvangi ríkisstjórnarinnar því að þetta er vissulega einn af þeim stóru þáttum á lánsfjármarkaði og í efnahagsmálum sem fleiri en einn ráðherra verða að blanda sér í. Málið er ekki komið á ákvörðunarstig en margir hafa nefnt það sem þingmaðurinn nefnir að greiðslumatsmöguleikarnir séu fullrúmir, þó annkannalegt sé að taka þannig til orða. Ég hef ekki gert þá skoðun að minni en er auðvitað tilbúinn að skoða þetta mál opnum huga eins og mönnum ber að gera.

Varðandi launagreiðslurnar sem þingmaðurinn nefndi er rétt að bæta við það sem ég sagði áðan, að á annað hundrað milljóna af þessum sex hundruð eru vegna framgangskerfis hjúkrunarfræðinga og annarra greiðslna til sjúkrahúsa þannig að upphæðin er ekki öll til komin vegna Kjaradóms og kjaranefndar. Eins og ég sagði eru rúmlega 60 millj. vegna Kjaradóms en þetta liggur allt fyrir ef menn vilja kynna sér það nákvæmlega.

Að því er varðar önnur atriði sem þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni varðandi framsetningarmöguleika hér og athugasemdir Ríkisendurskoðunar að því er varðar fjáraukalög þá er sjálfsagt að hlusta á þau atriði. Þegar ný lög voru sett um fjárreiður ríkisins var farið í gegnum þetta allt og þó ég efist ekki um að athugasemdirnar frá Ríkisendurskoðun, sem eru þó öllu fremur ábendingar en athugasemdir, séu gerðar af góðum huga þá sé ég ekki í fljótu bragði hvernig hægt er að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi varðandi aukafjárveitingar og fjáraukalög. Aðalatriðið, og mér fannst það mikilvægt --- þó að þingmaðurinn hafi ekki gert mikið með það --- er að þegar öllu er á botninn hvolft er það algjör undantekning að nokkurt ráðuneyti sé yfir heildarfjárheimildum þegar dæmið er gert upp. Langflest ráðuneytin eru undir þeim heimildum þegar öll kurl eru komin til grafar, fjárlög, fjáraukalög og tilfluttar greiðsluheimildir milli ára.