Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:08:20 (1162)

1999-11-04 16:08:20# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var einkar athyglisverð yfirlýsing. Hún er alveg skýr og greinileg. Ríkissjóður ætlar ekki að mæta sveitarfélögunum með beinum fjárframlögum úr sjóðum sínum. Ríkissjóður ætlar einhvern tíma að breyta tekjustofnakerfinu þannig að sveitarfélögin fái nýja tekjustofna, nýja skattstofna, sennilega með því að ríkissjóður lækki sína á móti eða að almenningur í landinu borgi hærri skatta. Ég hygg að það sé framtíðarlausnin sem hæstv. ráðherra hefur gjarnan talað um en ekki það sem sveitarfélögin eru að leita eftir. Við þekkjum það frá fyrri tíð og úr nágrannasveitarfélögum okkar að ríkissjóður hleypur gjarnan undir bagga og greiðir beint úr sjóðum sínum til sveitarfélaga vegna tiltekinna verkefna. Við höfum gert það í grunnskólamálum. Við höfum gert það í verkaskiptamálum ríkis og sveitarfélaga í gegnum tíðina. Það er því ákaflega merkileg yfirlýsing að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera í þessum vanda sveitarfélaganna. Það er sú yfirlýsing sem eftir stendur.