Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:58:00 (1187)

1999-11-04 16:58:00# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:58]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. ,,Menntun er eins og heilbrigði, hún telst til frumgæða og þess vegna ber að leitast við að tryggja öllum möguleika á henni skilyrðislaust. Hvað felst í þessu? Frumgæði eru þau gæði sem ekki eru forsenda neinna annarra, æðri gæða. Það er stundum sagt að frumgæði hafi gildi í sjálfum sér. Þau eru það sem allt annað stuðlar að.``

Þessi orð voru viðhöfð um menntun og gildi hennar í grein í Morgunblaðinu eftir Kristján G. Arngrímsson fyrr á þessu ári. Kristján veltir á skemmtilegan hátt vöngum yfir því hvers virði menntun sé. Hún er ekki aðeins hagkvæm eins og margoft hefur verið bent á, hún stuðlar að aukinni framleiðni og auknum hagnaði, en hún er eitthvað mikið meira. Að menntast er að þroskast, verða að því sem í manni býr. Engir stjórnmálamenn fá nokkru sinni neinu um þessa staðreynd breytt, þeir eiga einvörðungu að hlutast til um hvernig fara eigi að því að veita fólki aðgang að gæðunum, menntuninni, án tillits til efnahags eða aðstæðna að öðru leyti.

Lánasjóður íslenskra námsmanna var hugsaður sem tæki til að tryggja jafnrétti til náms svo að efnahagur stæði aldrei í vegi fyrir því að fólk gæti leitað sér menntunar. Markmiðin voru fögur þegar af stað var farið, en því miður hefur sagan sýnt að sjóðurinn tryggir þetta ekki. Grunnframfærsluþörf námsmanna hefur ekki verið könnuð síðan snemma á 8. áratugnum og til þess að sýna fram á skekkjuna sem í þeim framfærslugrunni felst, þá hefur verið bent á að samkvæmt honum virðast námsmönnum ætlaðar rúmar 9 þús. kr. í húsaleigu á mánuði. Sú tala hljómar hjákátlega í ljósi þess sem allir vita að í dag er varla hægt að fá tveggja herbergja íbúð á leigu á höfuðborgarsvæðinu á almennum markaði undir 70 þús. kr. á mánuði. Og stúdentagarðsíbúðir uppfylla aðeins um helming af þeirri húsnæðisþörf sem stúdentar standa frammi fyrir.

Herra forseti. Það eru engin ný sannindi að menntun er fjárfesting til framtíðar og að möguleikar okkar Íslendinga til að skapa hér eftirsóknarvert samfélag felast í menntun og aftur menntun, að nýta þann mikla auð sem felst í æsku landsins og virkja hugvitið. Ríkisstjórnin hefur orð á sér fyrir að leggja áherslu á annars konar virkjanir en hugvitsvirkjanir, og þarf kannski engum að koma á óvart afstaða hennar til LÍN. En sé okkur alvara með því að virkja hugvitið til framtíðar, þá er mikilvægt að skipta út þeirri stefnu sem rekin hefur verið af Sjálfstæðisflokknum í málefnum sjóðsins allt of lengi.