Umferðarlög

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:49:59 (1227)

1999-11-10 14:49:59# 125. lþ. 22.2 fundur 95. mál: #A umferðarlög# (ökuhraði) frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Ástæðan fyrir flutningi þessa máls er sú að sá sem hér stendur eyðir eins og margir aðrir þingmenn, sennilega á milli 400 og 500 klukkustundum á ári undir stýri. Þá verður maður var við það sem ábótavant er í umferðinni.

Það sem ég tel helst vera að í umferðinni er að vera skuli mismunandi hámarkshraði fyrir mismunandi ökutæki. Ég tel að sami umferðarhraði eigi að gilda fyrir öll ökutæki alls staðar eins t.d. í þéttbýlinu þar sem er ákveðinn 30 km hámarkshraði. Þar eiga allar bifreiðar aka á 30 km hámarkshraða. Þar sem ákveðinn er 70 km hámarkshraði í Reykjavík mega allar bifreiðar aka á 70 km hraða. En svo kemur að akstri úti á vegum. Þá mega fólksbifreiðar og ýmsar flutningabifreiðar aka á 90 km hraða en dráttarbílum með tengivagna er gert að aka á 80 km hraða. Þetta er slysavaldur í umferðinni og þess vegna flyt ég frv. til breytinga á umferðarlögum sem hljóðar svo:

,,38. gr. laganna orðast svo:

Ökuhraði bifreiðar, sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, má aldrei vera meiri en 90 km á klst.

Ökuhraði bifreiðar með eftirvagn eða skráð tengitæki má aldrei vera meiri en 90 km á klst.

Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að ákveða megi sérstakan lægri hámarkshraða vélknúins ökutækis en segir í 37. gr. og 1. og 2. mgr. þessarar greinar ef hönnun ökutækis krefst þess.``

Ég hef borið þessi atriði undir Umferðarráð og ýmsa lögreglumenn. Meginatriðið er að koma í veg fyrir framúrakstur fólksbifreiða, fram úr bifreiðum með dráttarvagna út af mismunandi hámarkshraða. Ég hef orðið vitni að slíku óhappi og rætt við flutningabifreiðastjóra sem segja að ærið oft sé ekki tekið tillit til ábendinga um umferð á móti. Einkabílarnir þjóta fram úr og oft með hörmulegum afleiðingum. Þetta er meginástæðan fyrir frv. sem ég flyt hér. Ég tel að þetta sé einfalt mál að laga. Í greinargerð segir:

,,Frumvarp þetta er flutt til að bregðast við aðstæðum á ökuleiðum landsins. Ljóst er að flestar bifreiðar eru þannig búnar að unnt er að aka þeim á hámarkshraða alls staðar á íslenskum vegum. Gildir það bæði um vöruflutninga- og fólksflutningabifreiðar. Gert er ráð fyrir að sami hámarkshraði gildi í þéttbýli fyrir allar gerðir bifreiða.`` Rökrétt er að það sama gildi úti á þjóðvegum en kannski er ekki ástæða til að fara nánar út í þetta mál. Mörg umferðaróhöpp hafa orðið við framúrakstur. Megintilgangur þessa frumvarps er að stuðla að fækkun umferðaróhappa.

Umferðarslys á Íslandi eru of mörg og alvarleg. Þeim verður að fækka. Rétt er að vekja athygli á að víða á vegamótum og í nágrenni þéttbýlis er gert ráð fyrir að dregið skuli úr hraða. Þau fyrirmæli eru vafasöm í mörgum tilvikum. Áhrifaríkara væri t.d. að vara við hættu þar sem aðstæður gera ökumönnum skylt að draga úr hraða jafnvel enn meira en hámarkshraði segir til um. Þær aðstæður sem vísað er til eru m.a. við Grundarhverfi á Kjalarnesi, afleggjara að Vogum á Vatnsleysuströnd og víðar. Þar lækkar hámarkshraðinn úr 90 km niður í 70 km. Stundum er það óþarfi en oft þarf draga enn meira úr hraðanum. Umferðarhraðinn á vegunum ætti kannski að ráða meiru.

Langt mál má hafa um hámarksökuhraða á Íslandi. Líklega eru gildandi lög í flestum tilvikum viðunandi en sú breyting sem hér er lögð til gæti að margra mati stuðlað að fækkun slysa.

Herra forseti. Mig langar að reifa vangaveltur um refsingar vegna of mikils ökuhraða. Ég tel að það mundi koma að mestu gagni ef refsingarákvæði yrðu þyngd þannig að fyrir hvern km umfram leyfilegan hámarkshraða, sé bifreið stöðvuð á annað borð, eigi að greiða þúsund kr. Ef bifreið er stöðvuð á 120 km hraða þá ætti ökumaðurinn að greiða 30 þús. kr. sekt. Sá sem er stöðvaður á 110 km hraða mundi greiða 20 þús. kr. sekt. Þetta væri langsterkasta aðhaldið til að koma böndum á umferðarhraða sem er alls ekki í lagi á Íslandi.

Auðvitað mætti viðra þá skoðun líka að sums staðar eru þeir sem aka of hægt í umferð, bæði úti á þjóðvegum og í þéttbýli, slysavaldurinn í umferðinni. Af því að ég ek á hverjum degi á milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur get ég nefnt að umferðarhraðinn sem þar á að gilda er ýmist 60, 70 eða 90 km á klukkustund. Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir því að eftir að bæjarmörkum Mosfellsbæjar sleppir á leið til Reykjavíkur er hámarkshraðinn 90. Þá er haldið áfram að aka á jafn 40, 50 eða 70 km hraða sem tefur mjög umferð og býður upp á hættuna á framúrakstri.

Þetta eru vangaveltur í kringum þetta frv. sem ég tel að sjálfsögðu að samþykkja eigi og afgreiða það sem fyrst í hv. allshn. Ég beini þeim tilmælum til forseta að þessu frv. verði vísað þangað og einnig til hv. samgn. til athugunar. Þar mætti jafnvel íhuga þau orð sem ég hef látið falla um refsingar og hvort þar sé ekki áhrifaríkt tæki til að koma böndum á of hraðan akstur. Ég hef eins og ég sagði áður borið þetta undir aðila í Umferðarráði. Ég hef borið þetta undir fjölda löggæslumanna og í öllum tilvikum hafa menn talið það vera þess virði að ræða málið, bæði með samræmingu á ökuhraða og eins sektarákvæðin.