Umferðarlög

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 15:03:51 (1229)

1999-11-10 15:03:51# 125. lþ. 22.2 fundur 95. mál: #A umferðarlög# (ökuhraði) frv., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar varðandi ýmis þau atriði sem þarf að skoða og endurskoða í umferðarlögum. Það eru alveg hárréttar ábendingar að vegirnir víða á landinu þola ekki þær bifreiðar sem eru komnar út á vegina og vegirnir þola ekki þá þungaflutninga sem orðnir eru. Ég nefni sem dæmi þá tæknibreytingu sem orðin er við flutning á mjólk úr Borgarfjarðarhéraði þar sem farið er að nota miklu stærri og þyngri bifreiðar og tímasetning er orðin mun stífari við að taka mjólk af bæjunum þannig að bifreiðarnar aka þunglestaðar á vegum sem ekki bera þá. Þarna eru atriði sem þarf að skoða.

Ég tek líka undir það sem var sagt um ljósastillingar. Þetta sjá allir sem í umferðinni eru. Þarna er eitthvað að fara úr böndunum því meira og minna eru ljós bifreiða vanstillt. Ég tel því að ástæða sé til að benda á fjölmörg atriði sem þarf að taka til skoðunar. Allt þetta sem ég nefndi og sem hv. þm. nefndi áðan getur verið slysavaldur og það eigum við að skoða mjög alvarlega.

Frv. sem ég var að mæla fyrir snýst um að reyna að koma í veg fyrir slys við framúrakstur. Þau eru allt of mörg þó ekki sé til skráning yfir það. En sem betur fer eru menn að gera úrbætur í þeim efnum. Verið er að taka upp slysaskráningu á Íslandi og verið er að taka upp það kerfi að menn geti hringt og spurt: Hvað hafa orðið mörg slys við framúrakstur, við framúrakstur fólksbifreiðar fram úr flutningabifreið eða öfugt? Þetta mun verða til innan skamms og er það vel að menn skuli taka á þeim málum á þann veg sem ég er nú að reyna að lýsa. Þetta á við öll tilvik slysa bæði á sjó og landi og lofti. Sú skráning er að koma og verið er að vinna að henni. Það mun verða mjög til gagns til að fækka slysum, sem er auðvitað meginmálið á bak við það frv. sem hér er flutt.

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur.