Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:09:35 (1265)

1999-11-11 12:09:35# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:09]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við frv. það sem ég hef mælt fyrir. Það kemur skemmtilega á óvart að stjórnarandstaðan telur að hér sé merkilegt mál á ferðinni. Ýmsir hafa lýst því yfir að frv. sé til mikilla bóta og frv. sem er til mikilla bóta hlýtur að vera býsna gott.

Nokkrar athugasemdir og fyrirspurnir hafa þó komið fram, m.a. um að upplýsingar skorti um áform gagnvart Póst- og fjarskiptastofnun. Það eru engin efni til að ræða ákvæði væntanlegs frv. um þá stofnun. Hins vegar er hægt að vísa til gildandi laga. Stofnunin er til. Hún hefur skyldum að gegna og ég hef ekki orðið þess var að nein teljandi vandkvæði væru á samstarfi milli þessara tveggja stofnana sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar.

Ég vil áður en lengra er haldið vegna orða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þar sem hann gerir tilraun til þess að draga upp ágreining á milli stjórnarflokkanna, segja þetta: Það kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að framsóknarmenn velta fyrir sér hvaða leiðir sé hægt að fara til að styrkja sem best framvinduna í fjarskiptamálunum. Ég er sammála því að leita þurfi allra leiða til að ná að veita sem besta þjónustu um landið allt. Eins og fram kom í ræðu minni er það einn mikilvægasti þáttur málsins. Ég tel ekkert óeðlilegt þó annar stjórnarflokkurinn fái fram umræður um þessi efni. Það er fullkomlega eðlilegt. Ég hef hins vegar fært fyrir því rök að besti kosturinn sé sá --- eins og ég sé þetta fyrir mér að öllu óbreyttu en við erum hins vegar að fjalla um breytingar á löggjöfinni --- að slíta ekki í sundur rekstur hinnar almennu þjónustu og reksturinn á grunnnetinu. Ég vísa m.a. til þess sem ég sagði í ræðu minni að við höfum kannski ekki í alla staði góða reynslu af þessu þegar litið er til þess ríkisfyrirtækis, Rariks, sem gegnt hefur mikilvægu hlutverki við raforkudreifinguna. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða og nefndin fer að einhverju leyti yfir. Þetta er hins vegar ekki beint á dagskrá með frv., þ.e. sala á Landssímanum í einu lagi eða að hluta. Við erum ekki að fjalla um þau mál, það er ekki komið að því. Núna erum við hins vegar að fjalla um skipulagið á fjarskiptunum.

Ég vil almennt segja um athugasemdir hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að þær voru að mestu eðlilegar. Hins vegar má ekki má það ekki gleymast þegar vitnað er til einstakra liða, t.d. c-liðar 6. gr. eins og hann spurðist fyrir um, að við erum að innleiða tilskipanir sem við höfum staðfest sem hluta af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það á við bæði um c-lið 6. gr. og d-lið 7. gr. sem þingmaðurinn vakti athygli á og væntanlega eigum við ekki margra kosta völ þegar kemur að því að fella tilskipanirnar að löggjöf okkar. Þess vegna er óþarfi að hafa mörg orð um það.

Varðandi ábendingu hv. þm. varðandi 8. gr., sérstaklega g-liðinn um eignaraðild, þá tel ég að þetta sé afskaplega mikilvægt ákvæði, þ.e. þar sem Póst- og fjarskiptastofnun fjallar um skilyrði til rekstrarleyfis. Hún þarf auðvitað að gera sér grein fyrir því hvernig eignaraðildinni er háttað ef um er að ræða aðila sem stunda einkaleyfisstarfsemi að öðru leyti. Því er afar nauðsynlegt að hafa það ákvæði inni að stofnunin geti gert kröfu um að fá upplýsingar um eignaraðild viðkomandi fyrirtækis svo það geti ekki í skjóli einkaréttar á einum vettvangi efnt til samkeppni við aðra aðila og fært á milli rekstrareininga á öðrum vettvangi. Þetta er afar mikilvægt. Ég veit að svo mikill áhugamaður um samkeppnismál sem hv. þm. er hlýtur að hafa afskaplega góðan skilning á því að Póst- og fjarskiptastofnun verði að hafa þetta ákvæði klárt.

[12:15]

Einhver nefndi það við mig í tilefni af einni af mörgum ræðum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um Póst- og fjarskiptastofnun annars vegar og Samkeppnisstofnun hins vegar að það veitti e.t.v. ekkert af samkeppni á milli þessara stofnana þannig að hin eðlilega niðurstaða fengist. En það er hins vegar ekki tilgangurinn með þessu frv., fjarri því. Það er afar mikilvægt að Póst- og fjarskiptastofnun sinni þeim verkefnum og þeim skyldum sem henni eru lagðar á herðar með þessari löggjöf, eftirlitshlutverkinu og því hlutverki að ganga í milli aðila þegar ágreiningur verður. Auðvitað þarf að halda þannig á málum að þessar tvær ríkisstofnanir, Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun hafi samráð um verklag þannig að ekki verði óeðlilegur eða óþarfur ágreiningur. En það er alveg ljóst að þarna skarast verksvið að einhverju leyti og ég tel að það sé ekkert óeðlilegt og að það hljóti að vera hægt að komast fram hjá og yfir þau vandamál.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði að umtalsefni 20. gr. um aðgang að heimtaug og þátt Póst- og fjarskiptastofnunar í því ferli. Það er alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram að stofnunin getur ekki synjað um aðgang en verkefni hennar er að jafna ágreining, gera kröfu um að aðilar nái niðurstöðu og komi sér saman um aðgang að heimtaug. Það er aðalhlutverk stofnunarinnar.

Hvað varðar gildistökuna samkvæmt bráðabirgðaákvæði um reikisamninga þá held ég að það sé ekki óeðlilegt þó að við gerum ráð fyrir því að það taki eitt ár að undirbúa þessa geysilega mikilvægu breytingu, þ.e. að stóra fyrirtækið þurfi að hleypa öðrum GSM-símafyrirtækjum að sínu kerfi. Það var mat okkar að eðlilegt væri að gefa þennan umþóttunartíma til þess bæði að búnaðurinn yrði sem allra bestur sem þarna væri notaður og að menn hefðu góðan undirbúningstíma og aðdraganda að þessari mikilvægu breytingu.

Hv. þm. ræddi nokkuð um 29. gr. þar sem fjallað er um viðskiptaskilmála o.fl. og hafði nokkrar áhyggjur af því að samgrh. hefði eitthvað með þessa hluti að gera. Það er náttúrlega fjarri lagi að gert sé ráð fyrir því að taka almennar samkeppnisreglur úr sambandi. Það er fjarri öllu lagi. Hins vegar er í fyllsta máta eðlilegt að samgrh. sé heimilt að setja reglur á grundvelli þessara laga eins og er um alla löggjöf. Þarna er um að ræða mjög mikilvæga þætti í rekstri þessara fyrirtækja sem snúa að bókhaldi og fjárhagslegri aðgreiningu milli einstakra rekstrarþátta þannig að ég tel að ekki sé hægt að gagnrýna þetta atriði með neinum rökum.

Ég nefndi áðan vegna þess sem hv. þm. sagði um að hann hafði áhyggjur af því að verið væri að taka eitthvað frá viðskrn. og þá Samkeppnisstofnun, að auðvitað er ekkert verið að því. Ég legg mjög mikla áherslu á að með þessu frv. verði samkeppni komið á og mér heyrist á viðbrögðum þingmanna að þeir fagni því. En það regluverk sem við gerum ráð fyrir í frv. er forsenda fyrir því að sú samkeppni geti orðið, og lögin um Póst- og fjarskiptastofnun eins og þau eru núna gera ráð fyrir þessu hlutverki þeirrar stofnunar og hún þarf auðvitað að hafa möguleika til þess að vinna það verk.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir velti fyrir sér bráðabirgðaákvæðinu um gildistöku reikisamninga eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og ég vísa til þess sem ég sagði um það. En ég vil algerlega vísa því á bug sem kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að ég hafi með óeðlilegum hætti sem samgrh. tekið afstöðu með einu fyrirtæki á þessum markaði umfram önnur. Nú er það svo að Landssíminn er þetta stóra fyrirtæki sem ýmsir telja sig hafa ástæðu til að hnýta í. Við erum að opna þennan markað og ég held að það hefði verið miklu eðlilegra að deila á samgrh. ef hann hefði ekki reynt að standa með þessu ríkisfyrirtæki, farandi með hlutabréf í fyrirtækinu. Ég hef hins vegar lagt ríka áherslu á, og ég tel að það komi fram í frv., samkeppni á þessum markaði og Landssíminn hefur sýnt það núna upp á síðkastið, m.a. með lækkun á gjaldskrá og með miklum breytingum á starfsemi sinni, að hann er tilbúinn til þessarar samkeppni og ég fagna því svo sannarlega.

Hv. þm. Jón Bjarnason vildi fá nánari skilgreiningu á alþjónustunni. (JB: Almennu heimildinni.) Já, ég heyrði hvað hv. þm. sagði áðan. Með því að færa þennan hluta af gagnaflutningum sem skilgreiningu inni í alþjónustunni þá erum við að leggja áherslu á að þau símafyrirtæki sem reka almenna símaþjónustu sem flokkast undir alþjónustu eiga að veita þessa þjónustu hvað varðar gagnaflutninga með ISDN-tengingum eða jafngildri tækni alls staðar. Það gerist hins vegar ekki á morgun. Það þarf auðvitað að gefa sér einhvern tíma til þess, en það er alveg ljóst að mjög víða er þessi þjónusta til staðar og fyrir hendi þannig að það er kannski ekki svo mjög mikið fyrirtæki að koma henni á.

Hvað varðar hins vegar þjónustuna við fiskiskipaflotann þá gildir allt annað með hann þannig að erfiðara er um vik að veita þá þjónustu. En hún hefur hins vegar batnað mjög mikið. Ég held að með gervitunglasambandi og nýrri tækni muni því öllu fleygja fram svo og með samkeppni.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn þannig að ég hef ekki tök á að koma inn á fleiri atriði. Ég vil bara endurtaka að ég þakka fyrir undirtektir og mér heyrist að hv. þingmenn verði ekki í neinum vandræðum með að takast á við umfjöllun um frv. um Póst- og fjarskiptastofnun þegar það kemur.