Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:29:43 (1269)

1999-11-11 12:29:43# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf fróðlegt að heyra og fylgjast með hvernig samfylkingarþingmennirnir sveiflast á milli í tilveru ríkisrekstrarins, þ.e. á milli þess óskaheims sem sósíalistar hafa náttúrlega boðað og byggir á því að allt skuli ríkisrekið og hins vegar þess að telja sig vera höfuðtalsmenn samkeppni. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fellur í þessa gryfju. Hann getur ekki gert þarna upp á milli.

Hins vegar vakti ég athygli á því í umræðunni í dag að það háttar hvergi þannig til þar sem símafyrirtækin hafa verið einkavædd að grunnnetið hafi verið slitið frá. Ég vakti athygli á þessu og að Íslendingar gætu kannski eitthvað af því lært.