Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:52:39 (1276)

1999-11-11 12:52:39# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:52]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að rétt sé að einn aðili beri ábyrgð en við erum algjörlega ósammála um hver það á að vera. Mér finnst, og ég endurtek það hér, mér finnst fráleitt að eini aðilinn sem á að bera ábyrgð sé eitt af fyrirtækjunum sem eru í samkeppnisrekstri. Hvernig ætla menn að tryggja eðlilega samkeppni undir þeim kringumstæðum eða vilja menn viðhalda því ástandi sem er í dag þar sem gengur á með kærum á Landssímann aftur og aftur vegna ítrekaðra brota eða meintra brota? Vilja menn viðhalda þessari stöðu?

Það finnst mér fráleitt, herra forseti, og ég tel af og frá að samkeppni verði tryggð ef menn ætla formlega að viðhalda því ástandi sem er vegna þess að þó svo að sett séu lagaákvæði um hvernig öðrum eigi að vera tryggður aðgangur að netinu er það samt þannig að menn komast aldrei frá þeirri tortryggni sem það vekur klárlega ef eitt af fyrirtækjunum í samkeppnisrekstri á að vera sá aðili sem heldur utan um netið. Ég held því að það sé rétt, við eigum auðvitað að nýta eignir og búnað og við eigum að gera þetta eins vel og við mögulega getum og við gerum það, herra forseti, með því að það sé einn aðili sem rekur þessa þjóðbraut, þjóðbraut okkar allra. En það verður ekki að mínu mati best gert með því að eitt af fyrirtækjunum í samkeppnisrekstri sjái um það.