Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:46:54 (1301)

1999-11-11 14:46:54# 125. lþ. 23.7 fundur 103. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá tillögu sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni um að þessi tilraun verði gerð. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir þróun almenningssamgangna að farið verði í þá tilraun og menn geri það trúverðuglega þannig að af henni megi draga þá lærdóma sem menn þurfa þegar litið er til framtíðar.

Sá hv. þm. sem talaði á undan mér velti aðeins fyrir sér um hvað þessi tilraun ætti að vera og hvort Samkeppnisstofnun mundi samþykkja hana. Í fyrsta lagi er verið að tala um tilraun en ekki varanlegan rekstur eða varanlegan rekstrargrunn. Í öðru lagi eru sérleyfishafar styrktir í dag frá ríkinu, ekki bara frá sveitarfélögum heldur líka frá ríkinu og menn geta velt því fyrir sér hversu lengi það fær staðist.

En tilraun um hvað? Það er rétt sem hér hefur komið fram að við höfum skipað okkar málum þannig að menn eru e.t.v. ekki svo fíknir í að nota þær almenningssamgöngur sem standa til boða og það mun taka svolítinn tíma að átta sig á því að almenningssamgöngur geti uppfyllt þarfir þeirra hvað varðar samgöngur. Um það á þessi tilraun að standa meðal annars. Gengur það? Er hægt, með því að taka upp reglubundnar samgöngur sem mæta betur þeim óskum og vonum sem við reiknum með að fólk hafi, að átta sig á því hvort þetta er möguleiki eða nokkuð sem er gerlegt?

Herra forseti. Á síðasta vori þegar við vorum að ræða till. til þál. um stefnu í byggðamálum fór ég yfir nokkur atriði þeirrar tillögu, sem síðan var samþykkt, til þess að benda á möguleika stjórnvalda til að bregðast þá þegar við í anda tillögunnar, sem ekki var gert. Þá lá samhljóða till. til þál. um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði fyrir frá sama hv. þm. Í ályktunartextanum um stefnu í byggðamálum segir í samþykktri þál. í 5. lið:

,,Forsendur traustra byggða og þar með vaxtarsvæða eru öruggar samgöngur, ...`` --- Og þar segir áfram: --- ,,Til að treysta búsetu og þróun vaxtarsvæða verði stuðlað að bættum og öruggari almenningssamgöngum.``

Herra forseti. Þetta segir í samþykktri þál. um stefnu í byggðamálum. Mér sýnist að með þessari tillögu sé hv. þm. að gefa stjórnvöldum í rauninni annað tækifæri til að takast á við það verkefni sem hér var samþykkt að takast ætti á við sem lið í byggðamálum, sem lið í því að treysta forsendur byggða og vaxtarsvæða með öruggum samgöngum. Við hljótum því að binda við það miklar vonir, af því að hér kom réttilega fram að málið er býsna vel undirbyggt, að stjórnvöld stökkvi nú á þessa tillögu, geri hana að sinni og okkar allra og samþykki.

Ég held að ágætt væri að stjórnvöld gerðu það --- og það fyrr en síðar vegna þess að við fundum fyrir því í fyrirspurnatíma í síðustu viku að stjórnarliðum leiddist nokkuð það sem þeir kölluðu svikabrigsl þar sem stjórnarandstöðuþingmenn voru að velta vöngum yfir því og jafnvel að draga í efa að jafnmikill vilji stæði á bak við það sem í samþykktri þál. um stefnu í byggðamálum stendur. En hér, eins og ég sagði, gefst stjórnvöldum annað tækifæri hvað varðar þessa till. til þál. og væri þá lítið að vanbúnaði að fara af stað með þá tilraun sakir þess að hún er undirbyggð, hún er undirbúin og heimamenn eru tilbúnir til að takast á við verkefnið.