Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 15:45:53 (1309)

1999-11-11 15:45:53# 125. lþ. 23.8 fundur 115. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að standa aftur upp undir umræðunni þar sem ég hafði knappan tíma í fyrri umferð og gat ekki komið öllu því til skila sem mér fannst nauðsynlegt í þessari umræðu. Ekki síður er ástæða þess að ég stend upp það sem fram kom í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 13. þm. Reykv., Ögmundar Jónassonar.

Mér finnst fagnaðarefni að opinberir starfsmenn hafi rætt þessi mál eins og fram kom í máli hans og ekki aðeins það heldur er ljóst af máli hans að opinberir starfsmenn hyggjast setja þetta fram í kröfugerð sinni í næstu kjarasamningum. Mér finnst það mjög athyglisvert sem hér kemur fram. Einnig er það athyglisvert að hv. þm. nefnir tveggja mánaða veikindarétt í veikindum barna án skerðingar á launum. Jafnvel þótt gengið væri að þessum kröfum, hugmyndum eða tillögum frá opinberum starfsmönnum, herra forseti, um tveggja mánaða veikindarétt fyrir foreldra vegna veikra barna, erum við samt sem áður á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum hvað þennan rétt varðar. Það er það sem mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á.

Eins og ég sagði áðan er þetta til skammar, ekki bara hve dagarnir eru fáir heldur skiptir engu máli hve börnin eru mörg í fjölskyldunni. Þó börnin séu fimm er veikindarétturinn einungis sjö dagar. Þetta eru ekki sjö dagar, herra forseti, fyrir hvert barn heldur eru þetta sjö dagar án tillits til fjölda barna eða alvarleika sjúkdómsins. Allir hljóta að sjá hve brýnt er orðið að taka á þessu máli.

Þar sem þetta kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni og vegna þess að opinberir starfsmenn ætla að setja þetta á oddinn er líka rétt að geta þess sem fram kemur í greinargerðinni, þ.e. að vegna þessa litla réttar sem þarna er hafa sjúkrasjóðir stéttarfélaganna hlaupið undir bagga í mörgum tilvikum eins og sjúkrasjóður Verslunarmannafélagsins og fleiri reyndar. En hér er bent á að opinberir starfsmenn eða bankamenn eiga ekki sjúkrasjóð og hafa ekki möguleika á stuðningi umfram þá sjö daga sem kjarasamningar heimila. Auðvitað er full ástæða til þess að taka málið upp með þeim hætti sem opinberir starfsmenn ætla að gera og vona ég að tillagan geti orðið jákvætt innlegg í þá umræðu.

Það er alveg rétt sem hv. þm. nefndi að það ætti varla að sliga útgjöld ríkissjóðs þó að réttur vegna veikinda barna yrði aukinn. Í fskj. með frv. er samanburður við hinar Norðurlandaþjóðirnar um útgjöld almennt til velferðarmála og hvað við erum líka þar langt á eftir. Það er líka rétt að halda til haga að jafnvel þó að útgjöldin vegna barna og fjölskyldna þeirra séu miklu minni hér en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum þá er samt hlutfall barna undir 15 ára aldri miklu hærra hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Þegar sú tafla var birt, sem fylgir tillögunni, fyrir sennilega þremur árum, var fjöldi barna undir 15 ára aldri 24,5% af heildinni miðað við 17--19% af heildinni annars staðar á Norðurlöndunum. Samt eru útgjöld á íbúa og sem hlutfall af landsframleiðslu til barna og fjölskyldna þeirra helmningi lægri en annars staðar á Norðurlöndunum.

Þess vegna fannst mér það líka mjög athyglisvert sem fram kom fyrir nokkrum dögum, ég held það kallist á miðstjórnarfundi hjá Framsfl., sú skoðun eða álit eða yfirlýsing frá formanni Framsfl. að þeir telja bara að það eigi að setja helsta kosningaloforð framsóknarmanna inn í kjarasamninga og að barnakortin eigi að vera einhver skiptimynt í kjarasamningum. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn Framsfl. meina að launþegar í landinu eigi að borga fyrir þetta helsta kosningaloforð þeirra með minni launahækkunum í komandi kjarasamningum. Mér finnst bera ágætlega í veiði að hv. varaþingmaður Framsfl. stendur hér, Árni Gunnarsson, og hann hefur sjálfsagt átt sæti á miðstjórnarfundinum. Væri ágætt að vita hvort það sé skoðun hv. þm., sem kom fram hjá formanni Framsfl., að helsta kosningaloforð framsóknarmanna eigi að vera skiptimynt í kjarasamningum.

Ég held líka, herra forseti, af því við erum að ræða um barnakortin, að fólk geti ekki verið voðalega bjartsýnt um að það breyti eitthvað barnabótakerfinu, hvað þá heldur að barnakort sýni sig í vasa barnafjölskyldna á næstu mánuðum eða jafnvel árum þegar litið er til svars sem ég fékk frá hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni um barnabætur. Þar spyr ég sérstaklega um hvaða áform séu nú uppi um að draga úr tekjutengingu barnabóta og hvenær megi ætla að þau komist til framkvæmda. Þar er einungis vísað í stjórnarsáttmálann, sem er mjög loðinn, um breytingar á barnabótakerfinu. Í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta: ,,Að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Meðal annars verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum.`` Það er greinilega ekkert samkomulag komið um það milli stjórnarflokkanna. Síðan segir fjmrh. í þessu svari: ,,Gert er ráð fyrir að unnið verði að þessu markmiði á kjörtímabilinu.`` Og hana nú. Ekki var nú fastar að orði kveðið en svo að gert er ráð fyrir að unnið verði að þessu markmiði á kjörtímabilinu, þ.e. að draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu eða koma á barnakortum. Lengra er nú málið ekki komið, herra forseti. Samt stendur í stjórnarsáttmálanum að það eigi að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð.

Í svari hæstv. fjmrh. kemur m.a. fram, sem ágætt er að halda til haga þegar við erum að ræða stöðu fjölskyldunnar og skammarlega lítinn rétt foreldra vegna veikinda barna, að ekki er betur staðið vörð um þennan hornstein þjóðfélagsins, sem stjórnarsáttmálinn talar um, en svo að barnabætur hafa skerst um hundruð milljóna á þessu kjörtímabili, á kjörtímabili þar sem þjóðin hefur búið við uppsveiflu í efnahagsmálum.

Mér finnst ekki mikið að marka það sem þar stendur og þetta séu meira orð á blaði en að fólk geti treyst þessu. Þeim sem fá barnabætur hefur fækkað um hvorki meira né minna en 30 þúsund frá 1992.

Þessu vildi ég halda til haga, herra forseti, um leið og ég fagna því og það var aðalerindi mitt í þennan ræðustól, að formaður BSRB og hv. þm. Ögmundur Jónasson, skyldi lýsa því yfir að það yrði eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar eða opinberra starfsmanna í næstu kjarasamningum að tryggja aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna sem er efni þeirrar tillögu sem við ræðum hér.