Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:03:45 (1314)

1999-11-11 16:03:45# 125. lþ. 23.8 fundur 115. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um það mikilvæga mál sem hér er rætt, tillögu til þingsályktunar um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Ég get tekið undir það að þetta er sennilega eitt þýðingarmesta mál sem lagt hefur verið fram á hinu háa Alþingi fyrir utan kannski fjárlög. Greinargerðina og allt það sem fylgir með tillögunni ber náttúrlega að þakka flutningsfólki tillögunnar sérstaklega fyrir, þ.e. að vekja athygli á þessu máli eins og hér er gert. Þetta sýnir hvað við Íslendingar erum aftarlega á merinni hvað þetta varðar, eins og svo margt annað.

Það er ekki bara að foreldrar almennt hafi lítinn rétt vegna veikinda barna. Ég vildi líka minna á og nefna í umræðunni kostnað landsbyggðarfólks við veikindi barna, kostnað landsbyggðarfólks sem þarf að taka sig upp og fara suður til Reykjavíkur til þess að leita lækninga fyrir börn sín og sækja þjónustu sem eingöngu er veitt í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki svo lítið mál kostnaðarlega séð og þess eru dæmi að fólk úti á landi hafi hreinlega gefist upp á að búa úti á landi og þurft að flytja nauðugt suður til Reykjavíkur vegna veikinda barna sinna. Það er vegna þess að kerfið býður ekki upp á og tekur ekki næganlegan þátt í þeim kostnaði sem hlýst við það að splundra fjölskyldum í raun og veru, þ.e. ef annað foreldrið þarf jafnvel að taka sig frá hinu og flytja sig suður og skilja hitt foreldrið eftir með börn, og nánast halda tvö heimili. Þetta er því mikill kostnaður sem ég vildi bæta inn í þessa umræðu og nefna hér.

Í svokallaðri byggðanefnd forsrh. sem ég hef oft vitnað í og ég sat í, var einmitt fjallað um þessi mál. Í einni tillögu nefndarinnar, sem merkt var 4. liður, var einmitt fjallað um þennan kostnað landsbyggðarfólks vegna sérfræðilæknisþjónustu og annars slíks sem auðvitað skarast við þessa þáltill. hér. Með leyfi forseta vil ég lesa þessa tillögu eins og hún liggur fyrir:

,,Til þess að auðvelda fólki á landsbyggðinni aðgang að sérfræðilæknisþjónustu verði sérstaklega skoðaðir tveir kostir:

a. að beinn ferðakostnaður sem hlýst af því að sækja slíka þjónustu verði frádráttarbær frá skatti,

b. að með beinum framlögum í gegnum Tryggingastofnun verði slíkur kostnaður endurgreiðslubær í ríkara mæli en nú er.``

Þetta var eitt af þeim atriðum sem við ræddum mjög mikið í byggðanefnd forsrh. og þetta er ein af þeim tillögum sem við kölluðum ,,bráðaaðgerðir`` og þyrfti að koma strax til framkvæmda. Auðvitað fellur þetta inn í þá þáltill. sem hér er verið að fjalla um og ég endurtek og vil þakka fyrir að hefur verið lögð fyrir þingið þó ég óttist að þessi tillaga eins og svo mörg önnur góð mál, sem frá stjórnarandstöðu koma, verði svæfð í nefndum þingsins.

Vegna þess að hér hefur verið dreift svari fjmrh. við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um barnabætur, á þskj. 184, þá er ansi gaman að lesa hvernig Norðmenn hafa sinn hátt á með barnabætur. Ég vil aðeins leggja það inn í umræðuna, vegna þess að hér er fjallað um það sem ég var að tala um áðan með landsbyggðarfólkið og kostnað þess sem er umfram kostnað höfuðborgarbúa vegna veikinda barna, að Norðmennirnir eru ekki hræddir við að nota skattkerfið til þess að létta undir með fólki og til þess að rétta hlut þeirra sem á landsbyggðinni búa umfram höfuðborgarbúana. Norðmennirnir greiða nefnilega aukabarnabætur fyrir þá sem búa í Finnmörku og Norður-Troms upp á 33.300 kr. Ég vildi bara aðeins vekja athygli á þessu vegna þess að þetta kemur fram í þessari ágætu spurningu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fyrir fjmrh. og dreift hefur verið á þskj. 184. Ég tek það skýrt fram að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að Norðmenn noti barnabótakerfið líka til þess að létta þarna undir. Á þetta vildi ég benda og nefna að margt í byggðastefnu Norðmanna getum við tekið okkur til fyrirmyndar á Íslandi. Ég endurtek að ég þakka flutningsmönnum fyrir að hafa flutt þetta mál inn á Alþingi. Það er sennilega eitt af mikilvægari málum þessa þings.