Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:30:45 (1469)

1999-11-16 14:30:45# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Er þá ekki best að fá þá pappíra hérna á borðið? Er þá ekki best að málið liggi allt saman fyrir áður en menn fórna Eyjabökkum og taka óafturkræfar ákvarðanir eins og lagt er til? Er það ekki betra en að skáskjóta sér fram hjá því að horfast í augu við málið? Þyrfti ekki að taka allt fyrir í samhengi, skoða allar þær virkjanir sem þarf til að fullnægja raforkuþörfum 480 þús. tonna álvers, Kárahnúkavirkjun, Kreppu, Blöndu eða jafnvel Jökulsá á Fjöllum og skoða einnig þjóðhagslegar forsendur í ljósi þess rafmagnsverðs sem þarna á að semja um?

Auðvitað er barnalegt að bera við viðskiptaleynd í þeim efnum þegar á hverju einasta ári kemur út ársskýrsla Landsvirkjunar með meðaltalsverði á rafmagni til stóriðju. Hvaða barn sem er getur reiknað þá hluti út. Það eru ekki mikil vísindi fyrir utan það að hagdeildir álvera úti um allan heim vita allt sem þær þurfa og vilja vita um þessi efni.

Nei, það er verið að fela þessar staðreyndir fyrir Íslendingum og það sem verra er fyrir alþingismönnum. Menn burðast við að bera við einhverri barnalegri viðskiptaleynd þannig að maður eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hér upp og viðurkennir að hann viti ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta.