Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:06:47 (1494)

1999-11-16 16:06:47# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að telja eftir mér ferðir í ræðustól til þess að endurtaka það sem hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði í morgun, þó að það sé undarlegt að heyra það frá þingmönnum sem hafa setið hér í salnum og fylgst með að þeir hafi ekki heyrt eða skilið það sem þar var sagt. Þingflokkur Samfylkingarinnar lýsti yfir stuðningi við þetta mál svo framarlega sem jákvæð niðurstaða hefði komið úr umhverfismati. Það er nú ekkert flóknara en það. Og mér finnst hart að þurfa að koma margar ferðir til þess að segja það þingmönnum hér í salnum.

Vegna þess að hv. þm. sagði hér að þeir sem vildu fá umhverfismat væru á móti virkjunum --- það var svo einfalt. Hún sagði það -- þá langar mig til þess að spyrja: Eru þá lögin um umhverfismat þannig að það verði ekkert virkjað meira á Íslandi? (HBl: Er ekki þingmaðurinn að vona það?) Nei, það er af og frá, hæstv. forseti, að ég vonist til þess að ekki verði virkjað meira á Íslandi. Ég hef satt að segja bundið vonir við það að eftir umhverfismat verði hægt að taka ákvörðun um að virkja í Fljótsdal og víðar á Íslandi.