Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:10:34 (1519)

1999-11-16 17:10:34# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það mætti að sjálfsögðu nefna atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu sem er orðin önnur stærsta útflutningsatvinnugrein Íslendinga, hún er orðin númer tvö, næst á eftir sjávarútveginum í gjaldeyrissköpun fyrir þjóðina, ein mesta vaxtargrein í íslensku atvinnulífi núna á síðari árum. Þurfa menn ekki líka að horfa til hagsmuna hennar og fleiri slíkra hluta? Þjóðréttarleg staða Íslands hefur að sjálfsögðu breyst. Við erum aðilar að Ríó-samningnum þó við höfum ekki enn þá fullgilt eða undirritað Kyoto-bókunina. Við eigum aðild að samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika þar sem svonefnd varúðarregla í samskiptum við náttúruna er ein af grundvallargreinum samningsins. Hún kveður á um ákveðnar leikreglur sem stjórnvöld eiga að uppfylla en íslensk stjórnvöld hafa valið að gera ekki. Að sjálfsögðu er það svo ekki þannig, herra forseti, að það sé frambærilegur málflutningur í sjálfu sér að segja bara annaðhvort eða. Ef menn vilja ekki þetta, vilja ekki álver og virkjanir, hvað sem það kostar, þá eru menn bara á móti öllu hinu. Þetta er, herra forseti, ekki flötur til þess að ræða þetta. (Forseti hringir.) Ég vona að hv. þm. fari nú ekki að reyna að endurtaka klisjurnar um að með því að styðja bara ekki þessa tilteknu framkvæmd sé maður andstæðingur landsbyggðarinnar.