Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 19:46:22 (1541)

1999-11-16 19:46:22# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[19:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Guðfinnsson vitnaði í lok ræðu sinnar í ummæli sem höfð hafa verið eftir mér. Hann byrjaði á að rangtúlka þau og fara fullkomlega rangt með, þ.e. að ég væri á móti málinu, að ég væri á móti umhverfismati. Það hef ég aldrei sagt og það hefur ekki einu sinni verið haft eftir mér í fjölmiðlum. Hv. þm. Einar Guðfinnsson leiðrétti sig reyndar, virðulegi forseti, og breytti setningunni. Þar með sætti ég mig við hana.

En þetta var ekki ástæða þess að ég kom hingað upp. Mig langaði í þessu andsvari að fá að fara nokkrum orðum um bráðabirgðaákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Bráðabirgðaákvæði II fæddist á sínum tíma hjá starfsmönnum ráðuneytisins, starfsmönnum og embættismönnum ríkisins. Um það hefur verið deilt hvort þetta undanþáguákvæði hafi í raun gilt um stórframkvæmdir sem hleypt hefur verið í gegn á undanförnum árum vegna þess að skýringin á því að undanþáguákvæðið var sett inn í lögin er --- það kemur fram í viðtali við Aðalheiði Jóhannsdóttur, fyrrv. lögfræðing umhvrn., í Morgunblaðinu og hefur komið fram víðar í viðtölum við hana --- að fyrir dyrum stóð vegagerð og brúargerð sumarið 1993. Fólk uppgötvaði allt í einu að þarna var fullt af framkvæmdum á teikniborðinu sem hefðu eðlilega samkvæmt þessum nýju lögum átt að fara í mat en mundu stöðvast. Það var auðvitað ótækt og auðvitað sá umhvn. á þessum tíma að það var ótækt. Þess vegna er þetta bráðabirgðaákvæði sett inn í lögin, ekki til að hleypa hverri stórframkvæmdinni í gegn matslausri ár eftir ár eftir ár.

Virðulegi forseti. Þetta bráðabirgðaákvæði er búið að framlengja tveimur árum lengur en góðu hófi gegnir.