Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 19:59:16 (1549)

1999-11-16 19:59:16# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[19:59]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að hv. 1. þm. Vestf. skuli ekki hafa á hreinu afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og telji að það sé tvískinnungur í okkar málflutningi. Það hefur margoft komið fram, hv. þm., í umræðum undanfarnar vikur að við munum lúta --- hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur sagt það hér úr ræðustóli --- að við mundum lúta þeirri niðurstöðu sem kæmi út úr lögformlegu umhverfismati. Það hefur margoft komið fram.

Við höfum einnig lagt fram frv. um sjálfbæra orkustefnu þannig að þingmanninum ætti að vera fullkunnugt um að við leggjum áherslu á annað en stóriðjumál. Þannig er okkar málflutningur.

Ég vil síðan spyrja hv. þm. Við erum að fara í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, orkuframleiðslu sem er ígildi þess sem við framleiðum í dag, til þess að fara í stórverkefni í stóriðju á Austurlandi. Finnst honum ekki full ástæða til þess að lúta því ferli sem lögformlegt umhverfismat gerir ráð fyrir í staðinn fyrir að draga þessa framkvæmd undan, en viðurkenna jafnframt að allar aðrar stórframkvæmdir í landinu skuli fara í lögformlegt umhverfismat? Það hefur verið unnið gríðarlegt verk í sambandi við undirbúning að lögformlegu umhverfismati og það er fyrirsláttur að mínu mati, herra forseti, að bera fyrir sig tímaleysi. Það er ekki hægt að bera fyrir sig tímaleysi þegar við erum að tala um einar stærstu fjárfestingar Íslandssögunnar. Við eigum að hætta því að fara í framkvæmdir og verkefni á þann hátt að skella okkur á magann með tunguna út.