Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:53:59 (1588)

1999-11-16 21:53:59# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Á Alþingi hafa menn atvinnu af því að taka ákvarðanir, segir hv. þm. Hjálmar Jónsson. Þannig háttar á Íslandi að valdinu er þrískipt, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Á Alþingi smíða menn lög og má til sanns vegar færa að það feli vissulega í sér að taka ákvarðanir en annar veigamikill þáttur í starfi Alþingis er að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

Nú greinir okkur á um hvort framkvæmdarvaldið fari að lögum í þessu máli. Hv. þm. Hjálmar Jónsson telur svo vera. Ég tel svo ekki vera. Ég vil beina spurningu til hv. þm.: Ef minni hluti á Alþingi, en verulegur hluti þingsins engu að síður, og meiri hluti þjóðarinnar er sammála því að Fljótsdalsvirkjun skuli fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum á þann hátt sem við höfum óskað eftir, hverja telur hann vera sína skyldu, hverja telur hann vera sína lýðræðislegu skyldu og hvað finnst hv. þm. vera sanngjörn framganga?