Framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:34:29 (1601)

1999-11-17 13:34:29# 125. lþ. 27.91 fundur 154#B framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað hárrétt hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni. Það er ekkert vit í að taka þetta mál á dagskrá og umræðan í gær leiddi það náttúrlega í ljós. Við förum mjög á skjön við gildandi lög í landinu um umhverfismat. Hið alvarlegasta í málinu kom fram í gær, og þá er ég ekki að tala um málið sem slíkt, er forsrh. sjálfur sagði að hann skildi ekki umhverfismat. Þó gilda um það lög frá Alþingi sem sett hafa verið í stjórnartíð hans. Hæstv. forsrh. sagði að fólkið vildi bara eitthvert umhverfismat og fengi það með þessu móti.

Við mómæltum því í allan gærdag að Alþingi væri falið að framkvæma umhverfismat. Ég tek því undir það með hv. þm. Sverri Hermannssyni að auðvitað var ekki nokkur glóra í að taka þetta mál á dagskrá þótt við létum það yfir okkur ganga og byrjuðum á umræðunni í gær.