Framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:44:56 (1609)

1999-11-17 13:44:56# 125. lþ. 27.91 fundur 154#B framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það lá ekki fyrir fyrr en fyrir u.þ.b. viku í svari hæstv. iðnrh. hvaða framkvæmdir, sem ekki eru hafnar, hann telur að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út fyrir og þurfi ekki að fara í umhverfismat. Fyrr gátum við því ekki brugðist við, samfylkingarmenn, en við gerðum. Þessar upplýsingar lágu ekki fyrir fyrr en fyrir u.þ.b. viku.

Ég ítreka við hæstv. forseta að hann var spurður ákveðinnar spurningar og verður að svara henni, já eða nei. Hann var ekki spurður hvort ósamkomulag væri um að hafa umræðuna um þetta mál í dag og í gær. Um það var samkomulag. Hann var spurður hvort hann vildi fallast á þau tilmæli sem hv. þm. Sverrir Hermannsson bar fram, að forseti ætti fund með formönnum þingflokka að gefnu tilefni. Ég óska eftir því að hæstv. forseti svari þessari einföldu spurningu. Annaðhvort svarar hann játandi með því að fallast á þennan fund eða hann svarar henni neitandi með því að fallast ekki á fundinn. Ég óska eftir því að hann svari spurningunni en ekki út í hött.