Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:12:07 (1621)

1999-11-17 14:12:07# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Menn hafa teflt fram ýmsum rökum í umræðu um þetta mál. Náttúruverndarsjónarmið hefur borið hátt. Í öðru lagi hafa menn rætt virkjunarkosti og virkjunarstefnuna. Í þriðja lagi hafa menn rætt efnahagslegar forsendur. Ég ætla að víkja í örstuttu máli að hverjum þessara þátta fyrir sig.

Fyrst tek ég fyrir náttúruverndarsjónarmiðin. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þau en vil vekja athygli á því að borist hefur yfirlýsing frá 14 framkvæmdastjórum World Wildlife Fund For Nature í Evrópu þar sem lagst er á sveif með þeim sem krefjast þess að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat. Ég ætla ekki að fjölyrða nánar um það en finnst þetta mikil tíðindi og sýna hve mikla athygli þetta mál er farið að vekja, ekki aðeins hér innan lands heldur víða um heim. Í ályktun sinni segja þeir að hér séu stór ósnortin víðerni til umfjöllunar, einstök náttúruperla og mikilvægt að um hana sé farið réttum höndum.

Ég held að enginn efist um að það er alvarlegt að ráðast í Fljótsdalsvirkjun, það hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér. Um það deilir enginn, það held ég ekki. Þetta er ráðstöfun sem verður ekki aftur tekin. Þessu verður ekki breytt eftir að við erum búin að virkja og fremja þau spjöll sem þetta hefur í för með sér. (Iðnrh.: Það eru heimildir til staðar.) Það eru heimildir. Nú erum við komnir í formsatriðin. Á hæstv. iðnrh. hrína náttúrlega engin rök frekar en fyrri daginn. Hann hefur heimild til að ráðast í þessi spellvirki og þá skal haldið áfram og ekki hlustað á nein rök. Ég ætla að tefla fram nokkrum rökum og það væri gleðilegt að heyra röksemdir og gagnrök hæstv. ráðherra.

Ég efaðist sannast sagna, þar til ég heyrði þessi frammíköll frá fulltrúa ríkisstjórnarinnar, að nokkur maður gerði þetta með glöðu geði. Ég hélt ekki. Ég hélt að flestum væri okkur eftirsjá í Eyjabökkum, ég stóð í þeirri trú. Menn teldu þetta hins vegar illskársta kostinn. Ég stóð í þeirri trú þar til ég heyrði frammíköll hæstv. ráðherra sem segist hafa heimild til að fremja þarna umhverfisspjöll. En við hin, og ég beini orðum mínum til annarra hv. alþingismanna, hlustum vonandi á rök í málinu.

[14:15]

Þá kem ég að öðrum þættinum sem er virkjunarstefnan og þar höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljað skoða þetta í víðu samhengi og spyrja: Hve mikil nýtanleg orka er á Íslandi? Samkvæmt mælieiningu sem er oft notuð, teravattstund, reiknast mönnum til að samanlagt sé hægt að afla bæði af vatnsafli og jarðvarma um 50 teravattstunda. Ef tekið er tillit til umhverfisverndarsjónarmiða sé óhætt að helminga þessa upphæð. Þá erum við komin niður í 25 teravattstundir. Hvað er búið að virkja mikið? Það er búið að virkja upp undir 7 teravattstundir, 6,5, og sú tala á eftir að hækka í u.þ.b. 9 stundir á næstu fáum árum vegna þegar gerðra samninga. Þá erum við komin í 9 teravattstundir, 9 af 25. Orkuspárnefnd gerir ráð fyrir því að 2% vöxtur almennrar raforkunotkunar verði hérlendis fram á miðja næstu öld, fram til um 2050. Það svarar til viðbótar sem nemur um 5,5 stundum frá aldamótum talið. Eftir standa þá 10,5 teravattstundir. Það er mat fróðra manna að þetta nægi tæpast til að framleiða vetni eða annað vistvænt eldsneyti sem geti komið í stað annars eldsneytis. Þetta er mat manna. Með öðrum orðum, við höfum ekki þá orku til ráðstöfunar sem menn ætla að setja í álverið ef við ætlum að verða sjálfum okkur nóg hér innan lands. Þetta er mjög umdeilanlegt út frá þessu sjónarmiði. Álverið, sem stendur til að reisa á Reyðarfirði, tæki til sín tæpar 7 teravattstundir, 6,7. Það samsvarar allri raforku sem framleidd er á Íslandi eða sem nýtt er á Íslandi í dag, bæði til fyrirtækja og heimila. Þetta eru stærðargráðurnar sem við erum að tala um. Út frá þessum sjónarhóli er þetta óhyggilegt. En eftir sem áður vilja menn ráðast í þessa framkvæmd. Hvers vegna? Þá tefla menn fram tvenns konar röksemdum, báðum efnahagslegs og félagslegs eðlis. Menn tala um efnahagslegt mikilvægi þessa og menn tala um byggðasjónarmið. Ég ætla að víkja fyrst að síðara atriðinu, byggðasjónarmiðunum. Í þeim gögnum, sem hér hafa verið reidd fram, kemur fram að þetta sé mikilvægt og lífsnauðsynlegt reyndar fyrir Austurland og menn eru þar að vísa til svæðis þar sem búa 8.400 manns. Menn eru að tala þar um 10 þéttbýliskjarna, 250 sveitabýli, 8.400 manns. Menn segja í þeim gögnum sem koma frá Nýsi að eðlilegt sé að ætla um 4.000 ársverk í byggð af þessari stærðargráðu. Þetta stóra álver, 480 þús. tonn ef það yrði byggt í fullri stærð, mundi veita einhvers staðar á bilinu 700--1.000 störf, þetta kemur fram í gögnunum, 700--800 ársverk ef ég man rétt. Finnst mönnum þetta vera mjög skynsamlegt og hyggilegt? Ég stóð í þeirri trú að það vantaði fólk á Austfjörðum núna, það er verið að flytja fólk þangað. Menn segja hins vegar að það sem byggðin þurfi á að halda sé fjölbreytni. Þetta er ekki bara spurning um hversu mörg störf er boðið upp á, heldur hvers eðlis þau eru. Þá þyrfti það náttúrlega að gerast að fólk, sem er núna í matvælaframleiðslu, flytti sig yfir í álframleiðslu, þetta gæti gerst. En menn eru að vonast til að annað kunni að gerast, þ.e. að fólk flytji til Austfjarða, að fólk sem er brottflutt, vegna þess að það hefur verið brottflutningur frá Austurlandi á liðnum árum, flytji til baka, komi aftur til Austfjarða. Finnst mönnum líklegt að það gerist að menn flytji aftur til að fá störf í álveri? Ég held ekki. Alla vega hefði ég haldið að það þyrfti að gera athugun á þessu. Hver eru líkleg byggðaáhrif? Hvað gerist varðandi fólksflutninga? Ég hefði haldið að það þyrfti að kanna þetta. Samkvæmt skilningi mínum er verið að setja allt of mörg egg í eina körfu. Í litla, fámenna byggð ætla menn að setja risastóran vinnustað. Ég tel þetta ekki vera hyggilegt út frá byggðalegum forsendum, mjög vanhugsað út frá byggðalegum forsendum.

Þá er að víkja að efnahagslegu forsendunum. Hverjar eru stærðargráðurnar í því dæmi? Hvað kostar að reisa álverið? Ýmsar tölur hafa verið nefndar. Menn hafa talað um 32 milljarða, 30 milljarða, menn hafa fært sig niður í 25 milljarða. Menn eru að tala um stærðargráðuna 30 milljarða króna. Það er fyrsti áfanginn. Hvað skyldi álverið kosta fullbyggt? Þá er verið að tala um 120 milljarða.

Hvað skyldi virkjunin síðan kosta? Menn hafa verið að tala þar um 30 milljarða í fyrsta áfanga. Menn hafa fært sig niður í 25 milljarða, 25--30 milljarða. Þetta eru stærðargráðurnar sem verið er að tala um. Við erum að tala um að verja í fyrsta áfanga um 60 milljörðum króna til virkjunar og álvers. Hvaðan eiga peningarnir að koma? Að ekki sé minnst á stækkunina þegar við erum komin upp í 120 milljarða og miklu meiri fjármuni í virkjanir vegna þess að þetta er fyrsti áfangi, við getum margfaldað þessa 30 milljarða með 4 eða 5 til að virkja nægilega fyrir þessa álverksmiðju. Við erum farin að tala um upphæðir sem nema 200--300 milljörðum króna.

Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Upphaflega áttu þeir að koma frá tveimur aðilum, Íslendinum og Norsk Hydro. En annar aðilinn vann heimavinnuna sína. Það er Norsk Hydro. Hann setti þetta í arðsemismat og féll frá þessu. Það var verið að tala um á sínum tíma að Norsk Hydro kæmi líka að virkjuninni, það var rætt um það. Það var rætt um að þeir kæmu líka að virkjuninni. Þeir gerðu arðsemismat og féllu frá því. Það er það sem gerst hefur. Nú er rætt um að þessi fjármögnun verði hér innan lands. Það verði jafnvel fjármagnað með lífeyrissjóðum Íslendinga. Það hefur verið rætt um það. Þetta er slíkt glæfraspil að engin fordæmi eru fyrir slíku. Hafa menn íhugað hvaða afleiðingar þetta mundi hafa á efnahagslíf þjóðarinnar?

Menn eru að tala um það núna að hér hafi verið of mikil þensla í atvinnulífinu við 5% hagvöxt. Hæstv. forsrh. hefur talað um það. Þjóðhagsstofnun hefur talað um að sé nauðsyn að kæla niður. Hvaða áhrif mundi þetta síðan hafa á efnahagslífið ef við færum í þessar framkvæmdir? Hvaða áhrif mundi það hafa? Samkvæmt gögnum sem hafa verið reidd fram má búast við þenslu upp á 7--7,5%. Það liggja gögn fyrir um það. Hvað á þá að kæla niður? Hvað á að setja í frystinn? Menn spyrja: Hvað ætlið þið að koma með í staðinn? Ég spyr á móti: Úr hvaða framkvæmdum öðrum á að draga þegar ráðist verður í þessi risaverkefni? Peningalega er þetta fullkomið glapræði og fullkomið ábyrgðarleysi í efnahagsstjórn í þessu litla samfélagi okkar sem telur 275 þús. manns.

Það er ágætt að hugsa eins og milljónaþjóð. Íslendingar hafa alltaf hugsað eins og milljónaþjóð. Finnst við vera svona 200--300 milljónir og það er ágætt. Það er kostur að hugsa stórt þangað til menn ætla að fara að sjá þessum 200--300 milljónum fyrir atvinnu, þá dugir ekkert minna til en að reisa eitt stærsta álver í heiminum í byggðarlagi sem telur 8.400 manns. Inn í efnahagskerfi sem er svo smátt ætla menn að koma með þessar stærðir, þessar upphæðir, og menn ætla að fara að mjólka lífeyrissjóðina til þess að hafa sitt fram. Tal um byggðastefnu er því ekki á traustum rökum reist að mínum dómi. Þetta er vanhugsuð stefna og efnahagslega er þetta fullkomið ábyrgðarleysi og glapræði.