Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:32:39 (1626)

1999-11-17 14:32:39# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Örstutt um byggðamálaþátt ræðu hv. þm. Hann virðist gera ráð fyrir því að enginn muni geta hugsað sér að flytja til Austurlands. Hann talar um málið út frá myndinni um mann með hjálm eða grímu sem skarar í logandi eld og eimyrju, og leggur út frá því. Það er náttúrlega alrangt. Störf í álverum eru að beytast. Þau eru að verða margþættari. Hann sleppir alveg að minnast á öll þau hliðaráhrif sem yrðu af slíkri framkvæmd. Hann sleppir að minnast á þau áhrif sem yrðu á samgöngur og þjónustu hvers konar og einfaldar myndina við manninn sem er með sköfu að skara í logandi eldinn með hjálm á höfðinu. Þetta finnst mér ekki vera mjög málefnaleg umræða og mér finnst að þetta verði að koma fram hér í framhaldi af ræðu hv. þm.

Það er staðreynd að fólk hefur verið að flytjast frá Austurlandi á liðnum árum. Það er alveg rakalaust að fullyrða það hér í ræðu eftir ræðu að ekkert af því fólki mundi hverfa aftur til Austurlands ef þar yrðu umsvif eins og af þessu munu leiða.