Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:01:34 (1636)

1999-11-17 15:01:34# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Skoðun mín varðandi áhrif álvers á byggð fyrir austan hefur ekki breyst. Ég veit ekki og hef aldrei sagst vita hvaða áhrif álver kemur til með að hafa á byggð á Austurlandi. Ég hef hins vegar bent á ýmsar aðgengilegar vísbendingar sem hafa gefið það til kynna að brugðið geti til beggja vona. Ég bendi hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni á þetta rit sem heitir Staðarval fyrir orkufrekan iðnað og var gefið út í mars 1983. Þar koma fram ákaflega vel rökstuddar vísbendingar um að svo stór framkvæmd og fjölmennur vinnustaður af þessu tagi í lítilli byggð geti haft afskaplega slæm áhrif.

En í þessu riti eru líka tíunduð dæmi um hið gagnstæða og þess vegna er svo mikilvægt að lögformlegt umhverfismat fari fram. Það er að fara fram núna hvað varðar álverið, en ég legg áherslu á það sem ég sagði í gær, þetta á að meta í heild sinni, virkjanirnar allar, álverið allt, línulagnir og allt annað, vegagerð, brúasmíð og allt hitt sem þessari framkvæmd fylgir.

En varðandi hitt sem hv. þm. talaði um, manninn sem hann hélt að væri að gera vörutalningu, væri kannski athugandi fyrir þingmenn að koma sér upp básum í kaupfélagi Baugs til þess að hleypa almenningi að sér eða hvernig ætlar hv. þm. að útfæra það tæknilega að almenningi verði tryggður aðgangur að þingmönnum meðan þingmenn eru að gera þetta umhverfismat sem nú stendur yfir?