Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:56:09 (1658)

1999-11-17 15:56:09# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. ,,Þjóðin treystir löggjafanum``, sagði hv. ræðumaður hér réttilega. (Gripið fram í: Ekki lengur.) En ég vildi aðeins benda á og vitna í ræðu hennar, að mér finnst vera gert lítið úr þinglegri meðferð í ræðum þeirra sem mæla gegn þessu máli. Mikið er gert úr sérfræðingum hinnar ágætu Skipulagsstofnunar. Ég er alveg sammála því að þeir hafa ágætu fólki á að skipa. En auðvitað munu þeir koma að hinni þinglegu meðferð málsins. Það er opin leið.

Varðandi aðgang almennings að þingmönnum, þá hefur almenningur aðgang að þingmönnum og hefur alltaf haft. Ég veit ekki hvers konar þingmenn það eru sem almenningur hefur ekki aðgang að. Ætla þeir menn að láta kjósa sig aftur ef almenningur hefur ekki aðgang að þeim? Ég held að of lítið sé gert úr þinglegri meðferð hér. Þingið hefur alla möguleika til þess að fjalla um þetta mál á vandaðan hátt. Það hefur ótal leiðir til þess og þar á meðal að kalla til ráðgjafar við þingnefndir þá ágætu sérfræðinga sem verið er að vitna í hér í umræðunni.