Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:32:35 (1726)

1999-11-17 21:32:35# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:32]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla á stuttum tíma að fara yfir sem mest af því sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom hér að. Ég vona að áður en þessari umræðu lýkur verði hann búinn að læra að á því er munur hvort virkjunarleyfið sem slíkt sé til staðar eða hvort við drögum í efa að undanþága varðandi umhverfismatið eigi við um þessa virkjun eða ekki. Það hefur enginn dregið í efa að virkjunarleyfið sé til staðar. Við höfum efast um að það eigi að gilda svo lengi, þ.e. ótímabundið. En hægt er að færa mörg rök fyrir því að það sé ekki undanþegið mati á umhverfisáhrifum.

Varðandi það sem hann spurði um síðar, þ.e. hvers vegna ég teldi að það ætti að fara í mat þar sem ég hefði sagt að ég vildi ekki að yrði virkjað, þá hefur það líka komið fram hér áður. Ég sagði það í fyrri ræðu minni, að ef við hreinlega réðum hér á þingi þá værum við búin að leggja af stóriðjustefnuna. Þá væri þessi virkjun ekki á dagskrá. Okkar stefna er alveg skýr. Við viljum nota þetta svæði til annarra hluta. En ef af þessu verður þá viljum við að farið verði eins varlega og hægt er og það verður ekki gert nema með mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.