Innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:05:54 (1782)

1999-11-18 11:05:54# 125. lþ. 28.5 fundur 87. mál: #A innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:05]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeim ummælum hæstv. utanrrh. að aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu geti mjög vel komið til greina og ég vænti þess að ráðherra fylgi þá þeirri skoðun sinni eftir með því að láta kanna ítarlega hvernig það getur gerst. Ég hef í tvígang flutt tillögu þess efnis að aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu verði könnuð, sú tillaga dagaði uppi í þinginu en það er löngu tímabært að farið verði af alvöru í að skoða endurnýjaða aðild. Menn segja það hafi verið tilgangslaust að sitja í ráðinu því það hafi ekki farið að vísindaráðgjöf en niðurstaðan er nú samt sú að eftir að við tókum þessi mál í okkar eigin hendur höfum við ekki heldur farið að vísindaráðgjöf. Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að það er ráðleysi að ætla sér að hefja hvalveiðar án þess að vera innan ráðsins. Norðmenn eru innan ráðsins, Japanar eru innan ráðsins, hæstv. ráðherra staðfestir það hér með að við getum ekki selt hvalaafurðir ef við erum ekki innan ráðsins. Því hvet ég til þess að farið verði af einurð og alvöru í að kanna það hvort það borgi sig fyrir okkur og hvort það sé ekki einmitt rétta leiðin að við fáum endurnýjaða aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu.