Alþjóðlegur sakadómstóll

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:15:27 (1789)

1999-11-18 11:15:27# 125. lþ. 28.6 fundur 143. mál: #A alþjóðlegur sakadómstóll# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:15]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Í ár heldur alþjóðasamfélagið upp á að 50 ár eru liðin frá undirritun mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en mannréttindasáttmálinn hefur verið lagður til grundvallar samningum milli þjóða til verndar mannréttindum í ófriði sem á friðartímum.

Þrátt fyrir ótal alþjóðassamninga, sáttmála og yfirlýsingar þar sem reglur eru m.a. settar til varnar borgurum á stríðshrjáðum svæðum og bann við framleiðslu og notkun tiltekinna vopna hefur mannréttindabrotum fjölgað í heiminum. Jafnframt hefur alþjóðasamfélaginu orðið æ ljósari vöntun á aðferðum til að sporna gegn stríðsglæpum og kalla þá sem brjóta á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum til ábyrgðar fyrir dómstólum. Frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari, eftir Nürnberg- og Tókíó-réttarhöldin, hafa Sameinuðu þjóðirnar leitað leiða til að koma á stofn alþjóðlegum sakadómstóli til að lögsækja einstaklinga sem gerast sekir um alvarlega glæpi á ófriðartíma og refsa þeim. Á það má benda að Alþjóðadómstóllinn í Haag tekur eingöngu á málum er varða samskipti milli ríkja en tæki til að taka á stríðsglæpum sem framdir eru af einstaklingum hefur skort.

Á undanförnum áratugum hafa stríðsdómstólar verið settir á laggirnar til að taka á einstökum málum, eins og t.d. í Rúanda og í fyrrum Júgóslavíu, en þeir dómstólar hafa verið settir upp til að taka á þeim tilteknu málum en hafa ekki möguleika að taka á mannréttindabrotum sem eiga sér stað annars staðar né koma í veg fyrir ofbeldi í framtíðinni.

Fyrirhugaður alþjóðlegur sakadómstóll verður ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og verður stofnaður til frambúðar. Alþjóðlegum sakadómstóli er ætlað að lögsækja einstaklinga sem grunaðir eru um yfirgang, stríðsglæpi, þátttöku í þjóðarmorði eða aðra alvarlega glæpi gegn mannkyni. Til hins síðarnefnda teljast víðtækar og skipulagðar árásir á tiltekinn hóp manna með t.d. morðum, útrýmingu, nauðgunum, kynlífsþrælkun, þröngvuðum þungunum, mannránum eða glæpum vegna aðskilnaðarstefnu.

Herra forseti. Fulltrúar 160 landa tóku þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um stofnun alþjóðlegs sakadómstóls sem haldin var um miðjan júlí 1998. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, dagsettum 30. júní nú í sumar, hafa 55 þjóðlönd undirritað samninginn um stofnun sakadómstólsins en á þeirri dagsetningu höfðu eingöngu þrjú þeirra fullgilt samninginn. Búist er við að allflest löndin sem tóku þátt í ráðstefnunni muni að lokum fullgilda samninginn. Til þess að alþjóðasakamáladómstóllinn geti tekið til starfa þurfa 60 þjóðlönd að fullgilda hann.

Ísland hefur undirritað samninginn en enn ekki fullgilt hann. Af því tilefni er þessi fyrirspurn lögð hér fram.