Niðurstöður launakönnunar kjararannsóknarnefndar

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:45:05 (1799)

1999-11-18 11:45:05# 125. lþ. 28.8 fundur 60. mál: #A niðurstöður launakönnunar kjararannsóknarnefndar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:45]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta vera hálfráðleysislegt. Það er eins og menn séu bara uppgefnir og standi ráðþrota gagnvart þessum vanda sem hér er við að eiga. Ég held að stjórnvöld verði að taka þessar staðreyndir alvarlega sem birtast okkur endurtekið í könnunum og menn verða að reyna að hafa einhverja meðvitund um það hvaða hlutir eru hér að gerast. Ég lasta ekki þá vinnu sem unnin hefur verið af hálfu hæstv. félmrh. og þar hefur margt verið ágætlega gert í sambandi við könnun á þessum málum og annað slíkt. Það er mér ljóst. En í raun liggja ærið nægar upplýsingar fyrir. Ég minni þar líka á hina miklu skýrslu sem ég hygg að Jafnréttisráð hafi látið gera um kynbundinn launamun sem er tveggja, þriggja ára gömul.

Það sem menn þurfa að líta hér á líka eru þær aðstæður og það umhverfi sem kjarasamningar eru gerðir í og hvernig staða almennra kjarasamninga er í þjóðfélaginu. Það er enginn vafi á því að virkasta aðferðin til að útrýma kynbundnum launamun og reyndar einnig landshlutabundnum, eru almennir, gagnsæir og sterkir kjarasamningar þar sem allir þiggja laun samkvæmt sömu samningum, þ.e. gott grunnkaup fyrir venjulega dagvinnu og sem allra minnstar persónubundnar og óumsamdar sporslur þar ofan á. Það er reynsla allra þjóða. Ég hygg ástæðuna fyrir því t.d. að þessi munur er einna minnstur á byggðu bóli í Svíþjóð vera að þar eru sterkir, almennir, gagnsæir kjarasamningar sem menn taka almennt laun eftir. Þar er lítið um yfirvinnu og lítið um persónubundnar sporslur.

Hvað varðar aðstöðuna milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þá er enginn vafi á því að þensluástandið hér á undanförnum missirum er eitt af því sem er þarna að draga í sundur og að því leyti er ég sammála hæstv. félmrh. að svarið við því er að jafna þessar aðstæður. En mér hefði nú fundist betra að hæstv. félmrh. og einu sinni Blönduvirkjunarandstæðingur, hefði betur sleppt því að koma einnig með Fljótsdalsvirkjun sem patentlausn á þessum vanda. Á hún nú að útrýma kynbundnum og svæðabundnum launamun á Íslandi ofan á allt annað?