Gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:39:48 (1822)

1999-11-18 12:39:48# 125. lþ. 28.14 fundur 131. mál: #A gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:39]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þm. Tómasar Inga Olrichs að þetta eru vandmeðfarin mál. Ég vil gera athugasemd við eitt. Það er ekki ágreiningur um heimildir í lögunum en það eru handabakavinnubrögð, hæstv. forseti, að setja tekjuöflunarpóst í fjárlög á mál sem ekki er afgreitt. Það er full ástæða til þess að leggja niður fyrir sér tillögur um hvernig fara eigi í þessi mál. Ég get ímyndað mér að ekki sé ágreiningur um að innheimta gjöld af tjaldsvæðum. En að setja þetta inn áður en það er búið að móta stefnu um hvernig hlutirnir eigi að vera tel ég rangt. Við eigum fyrst að fá tillögur og ræða, komast að samkomulagi um þær og setja þær síðan í framkvæmd.

Hæstv. forseti. Ég tel að málið sé í þeim farvegi að verið sé að rasa um ráð fram.