Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:12:07 (1881)

1999-11-18 15:12:07# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar ráðherrans dregur það fram sem við höfum verið að ræða um hver vandi þingmönnum er á höndum að fá slíka skýrslu til þess að meta. Við höfum fyrst og fremst verið að ræða það í þessari umræðu hve ósátt við erum við að Alþingi fái þær skýrslur sem áttu að fara aðra leið samkvæmt lögum sem Alþingi hefur sett, að mál sé gripið úr því ferli og fært hingað inn í þing með þeim hætti sem gert hefur verið. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að ráðherrann hefur staðfest að gallar eru á skýrslunni en hins vegar er ég ekki með þessum orðum mínum að vekja athygli á því að endilega sé rökrétt að allir þingmenn leggist ofan í að fara yfir efnisatriði skýrslunnar þó að ég hafi reyndar þaullesið hana.