Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:45:01 (1896)

1999-11-18 15:45:01# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða hefur snúist mjög mikið um náttúruvernd. Það er skiljanlegt vegna þess að hér er gert ráð fyrir að eyðileggja náttúruperlur, þetta eru ráðstafanir sem verður ekki snúið aftur með.

Það er hins vegar rangt sem fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að lítið hafi verið gert úr öðrum þáttum þessara mála, atvinnuþróun og hinum efnahagslegu stærðum. Ég hef lagt áherslu á að ég telji þetta vera efnahagslegt glæfraspil og mjög vanhugsaða byggðastefnu, menn séu að setja of mörg egg í eina körfu, menn geri ráð fyrir því samkvæmt þeim gögnum sem hér hafa verið reidd fram að fjórði eða fimmti hver maður á Austurlandi vinni annaðhvort í álverinu eða í atvinnustarfsemi sem tengist því. Þetta er mikil áhætta sem verið er að taka, ég tel þetta vera mjög vafasama ráðagerð. Þegar farið er að rýna í hinar efnahagslegu forsendur á sama hátt og aðilar á borð við Norsk Hydro gerðu hverfa menn frá þessu ráðslagi. Það gerði það fyrirtæki sem á sínum tíma íhugaði að taka þátt bæði í kostnaði við álver og virkjanaframkvæmdina.