Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:48:55 (1923)

1999-11-18 16:48:55# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:48]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að það verði mælt hvort hér hafi verið slegið hraðamet vegna þess að hér voru mörg orð sögð á skömmum tíma. (Gripið fram í.) Ég reikna með að fáir hafi a.m.k. numið allt. En ég held að innihald sé nokkuð skýrt. Að minnsta kosti barst í mín eyru hið merka orð bull, og minnti það mig mjög á fyrri orð hv. þm., samanber þegar virðulegur væntanlegur vinnustaður við Reyðarfjörð var kallaður álvershlussa. Hér er greinilegt að orðalag er notað og miðað við skoðanir og það er ekki farið dult með.

Herra forseti. Ég sé að nefndarmenn í umhvn. hafa almennt áhyggjur af því sem ég benti á. Ég fagna því sem slíku vegna þess að það ætti að tryggja að nefndin skoði þetta atriði sérstaklega vel. (Gripið fram í: Fær hún nægan tíma?)