Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:05:01 (1988)

1999-11-22 15:05:01# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í 23. gr. þingskapa stendur um vísun til nefndar:

,,Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.``

Það leikur enginn vafi á því og getur ekki farið á milli mála að efni þeirrar þáltill. sem hér um ræðir á að ræðast í umhvn. enda er fremst í tillögunni vísað til umhverfisskýrslu sem fylgir henni sem megingagn. Aðalágreiningurinn um þetta mál á hv. Alþingi snýst um hvort fram skuli fara umhverfismat samkvæmt núgildandi reglum og lögum eða ekki.

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að atkvæðagreiðsla verði um þetta mál og ég tek undir með hv. þm. sem talaði hér á undan um að þessari tillögu verði vísað til umhvn. Ég tel reyndar fráleitt að hægt sé að vista hana til umfjöllunar annars staðar heldur en hjá umhvn. Umhvn. getur síðan leitað eftir áliti iðnn. um þetta mál. Það er verið að snúa hlutunum gjörsamlega á haus með því að vísa málefnum umhvn., sem heyra undir hana samkvæmt skilgreiningum sem hafa verið samþykktar í hv. Alþingi, til annarra nefnda.