Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:02:08 (2024)

1999-11-22 18:02:08# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:02]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um frv. sem hér liggur fyrir. Það komu fram ýmsar spurningar en umræðan hefur verið mjög jákvæð og mér sýnist að hv. heilbr.- og trn. verði ekki lengi að afgreiða þetta miðað við þá umræðu sem hér hefur orðið.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom inn á það áðan að misræmi væri í því að skilgreina fólk aldrað 67 ára og miða þar við töku lífeyris en svo tækju sjómenn lífeyri sextugir en teldust ekki aldraðir. Þetta er mjög gömul hefð og þessari hefð breytum við ekki.

Síðan minntist hún á að fram hefði komið í svari mínu að samstarfsnefndin hafi ekki verið til kölluð vegna nefndarstarfa framkvæmdanefndar árs aldraðra. Ég ætla því að segja hv. þm. það að formaðurinn í samstarfsnefndinni var líka formaður í framkvæmdanefnd um ár aldraðra og starfsmaður samstarfsnefndarinnar var líka starfsmaður í framkvæmdanefnd um ár aldraðra. Fulltrúi Landssambands aldraðra var fulltrúi líka í þessari framkvæmdanefnd um ár aldraðra. Þarna komu því margir að enda hefði þetta ár ekki orðið eins litríkt og raun ber vitni nema af því svo margir komu að því.

Svo vil ég líka geta þess sérstaklega að ríkisstjórnin eða hluti ríkisstjórnarinnar, þ.e. heilbrrh., félmrh., forsrh. og fjmrh., hefur tekið upp þann sið að hafa reglulega fundi með Landssambandi aldraðra. Það er því mikið samstarf og getur eiginlega ekki verið meira en það er í dag eða a.m.k. ekki meiri fundarhöld á milli þessara aðila eða samvinna þó að menn séu eflaust ekki sammála um alla hluti.

Varðandi aðra þætti vil ég minna á það að á þessu ári hækkuðu vasapeningar til þeirra sem dveljast á stofnunum um nánast helming og það held ég að hafi verið gott framfaraspor. Hér var talað um tekjutengingar og þá vil ég minna á að hvorki sú ríkisstjórn sem situr í dag né ríkisstjórnin sem sat þar á undan hefur aukið við tekjutengingu heldur þvert á móti minnkað tekjutengingar þannig að við höfum verið á réttri leið hvað það varðar.

Sagt var að sífellt meira fjármagn fari til rekstrar í öldrunarstofnunum. Ég vil minna á að meira hefur farið til framkvæmda nú upp á síðkastið en áður. En á tíu ára tímabili er það alveg rétt að framkvæmdasjóðurinn hefur lagt verulegt fjármagn til rekstrar. Rekstrarþátturinn er auðvitað að verða sífellt stærri og þyngri, eðlilega vegna þess að við erum sífellt að fjölga hjúkrunarrýmum. Um þessar mundir erum við að fjölga í Garðabænum öðru hvorum megin við áramót um a.m.k. 25 rými. Víðines opnaði 25 rými á þessu ári og við erum að undirbúa, eins og þingheimi er kunnugt, 60 rúma hjúkrunarheimili. Það er því mikil uppbygging í gangi.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á ýmislegt, þekkir til mála afar vel. Hann var með vissar vangaveltur, ef svo má segja, um hvernig framkvæmdasjóðurinn væri samansettur, en hann er ráðgefandi aðili fyrir ríkisstjórn eins og fram kemur í lögum. Við erum búin að velta þessu mikið fyrir okkur eins og hv. þm. og niðurstaðan er sú að samsetningin er mjög skynsamleg eins og hún er. Þarna koma menn víða að með mismunandi sjónarmið. Þetta er ekki endanleg ákvörðun heldur eru þetta tillögur til ríkisstjórnarinnar og það er undantekning ef miklar breytingar verða á tillögunum og því sem síðar er ákveðið af ríkisstjórn.

Þá kem ég inn á það sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir sagði áðan einmitt varðandi þennan þátt. Hún hafði áhyggjur af því að verið væri að rugla saman heilbrigðisþættinum og félagsmálaþættinum. Í þessu frv. erum við eingöngu að fjalla um heilbrigðisþáttinn. En það kom réttilega fram hjá 19. þm. Reykv. varðandi Akureyri sem er reynslusveitarfélag og hefur haft þetta verkefni með höndum, að okkur sýnist þetta í ljósi reynslunnar koma mjög vel út þar sem þetta er þróað saman. En frv. gerir ekki ráð fyrir því.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom líka inn á marga þætti og vildi fá betri skilgreiningu á heimaþjónustu sem ætti að veita um helgar, nætur og kvöld. Honum fannst ekki nægilega skýrt að orði kveðið. Við höfum verið að efla þennan þátt heilsugæslunnar verulega á undanförnum árum og erum sífellt að fjölga þeim hjúkrunarfræðingum sem sjá um þessa þjónustu. En það er ekki hægt að kveða skýrar á um þetta vegna þess að víðast hvar í dreifbýlinu getum við ekki fullnægt þessu þó við fegin vildum því að við höfum ekki mannafla til þess. Þess vegna er ekki hægt að kveða skýrar á um þetta en við gerum þarna.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Ásta Möller komu bæði inn á þjónustuíbúðirnar. Það er alveg hárrétt sem þau bæði sögðu að það er náttúrlega alveg ófyrirgefanlegt að selja fólki svokallaðar þjónustuíbúðir með fölsku öryggi. Þess vegna kveður ýmislegt í frv. skýrar á um það hvaða þjónustu eigi að veita í þjónustuíbúðunum til að þær standi undir nafni.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vildi fá betri skýringar á því hvernig stæði á því að ríkið væri ekki með fulltrúa í stjórnum eins og var gert ráð fyrir í fyrri drögum. Það er einfaldlega vegna þess að þarna er um sjálfseignarstofnun að ræða eins og DAS og Grund. Þó að það sé nú þannig að ríkið sjái algjörlega um fjárhagslegan rekstur þá þykir mönnum þetta vera mikið inngrip inn í sjálfseignarstofnanir. Það varð einfaldlega ekki samkomulag um það þannig að niðurstaðan er þessi.

Hv. þm. Ásta Möller talaði um að mikilvægt væri að fagleg forsjá varðandi heilbrigðisstofnanir væri skýr og svaraði sér eiginlega sjálf. Það fer að sjálfsögðu eftir eðli stofnananna hvaða kröfur eru gerðar, hvaða þjónustu við ætlum að veita á viðkomandi stað. Við veitum mikla heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum og höfum gert þar strangar kröfur til fagmála.

Varðandi annað sem komið hefur fram þá langar mig að segja að við erum sífellt að vinna að því að bæta og breyta varðandi hagi þessa fólks sem hér um ræðir. Við höfum á þessu ári verið að hækka frítekjumörk tekjutrygginga. Við höfum verið að hækka vasapeninga þeirra sem dvelja á stofnunum. Við höfum verið að endurskipuleggja endurhæfingarmál fyrir þennan aldurshóp og við höfum verið að auka réttindi aldraðra vegna tannlækninga svo eitthvað sé nefnt. Ég tel að við séum á réttri leið og ég held að þetta frv. sé liður í því.