Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:33:16 (2056)

1999-11-22 20:33:16# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um Sinfóníuhljómsveitina og tryggingu þess að þar verði vel á málum haldið. En mig langar til að koma aðeins inn á hið lýðræðislega hlutverk ríkisútvarps eða útvarps almennt og benda á að eðli útvarps er að sjálfsögðu annað en eðli prentmiðla. Mig langar í því sambandi að vitna til bandarísku útvarpslaganna en í þeim segir, með leyfi forseta --- og það er land frelsisins sem hér talar --- að frá því í upphafi hafi kröfur stjórnvalda til ljósvakamiðla miðast við það að varðveita grundvallarþarfir bandarískra stjórnmála og menningar umfram það sem hægt er að ætlast til af markaðnum. Stjórnvaldsreglur um ljósvakamiðla stefna að betur upplýstri þjóð, aukinni almennri umræðu, fjölbreyttri tjáningu, betur menntuðum landsmönnum, sterkara menningarlega fjölbreyttu samfélagi í hvívetna.

Skyldur af þessu tagi eru í nágrannalöndum okkar lagðar á herðar útvarpsstöðvunum og ákveðið apparat fylgist með því að slíkt sé gert. Það þarf líka hér.