Öryggi greiðslufyrirmæla

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 13:34:45 (2073)

1999-11-23 13:34:45# 125. lþ. 31.7 fundur 23. mál: #A öryggi greiðslufyrirmæla# (EES-reglur) frv. 90/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum frá efh.- og viðskn. Málið hafði komið til umfjöllunar í nefndinni milli 1. og 2. umr. Á því hafa verið gerðar breytingar í 2. umr. en við yfirlestur á nefndasviði Alþingis komu í ljós smágallar á frv. tæknilegs eðlis og eru brtt. fluttar til þess að bæta úr því.

Þessar brtt. eru í fjórum liðum:

Við 2. gr. Orðin ,,og framkvæmdastjórnar EB`` í 1. tölul. falli brott. Ástæðan er sú að eingöngu þarf að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Við 7. gr. Í stað orðanna ,,þess ríkis sem gildir`` komi: sem gilda.

9. gr. er endurorðuð ... (GÁS: Vill þingmaðurinn tala hærra og skýrar?) 9. gr. er endurorðuð til þess að efni hennar sé skýrara en kemur fram í greininni eins og hún stendur.

Þá vil ég sérstaklega vekja athygli hv. þm. sem óskaði eftir að hærra væri talað að gert er ráð fyrir að 14. gr., sem kveður á um að lög þessi öðlist þegar gildi, verði 1. mgr. 13. gr.