Tollalög

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:40:41 (2083)

1999-11-23 14:40:41# 125. lþ. 31.10 fundur 209. mál: #A tollalög# (tölvuvædd tollafgreiðsla) frv. 109/1999, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. sem er sáraeinfalt bæði að efni og formi.

Í frv. þessu er lagt til að framlengdur verði um eitt ár sá frestur sem aðilar sem stunda inn- og útflutning í atvinnuskyni hafa til að taka upp tölvuvædda tollafgreiðsluhætti.

Með lögum nr. 69/1996 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á ákvæðum tollalaga. Meðal annars voru lögfest ákvæði um tölvuvædda tollafgreiðslu sem í lögunum er nefnd SMT-tollafgreiðsla.

Í þeim lögum voru áskildir tilteknir frestir. M.a. var aðilum veittur frestur til 1. janúar árið 2000, þ.e. 1. janúar nk. til að skila tollskýrslum á tölvutæku formi eins og ákveðið var í lögunum.

Nú er lagt til að þessi frestur verði framlengdur um eitt ár. Ástæðan fyrir því er tvíþætt. Í fyrsta lagi þykir ekki heppilegt að stuðla að miklu álagi á kerfið í kringum næstu áramót, 1. janúar árið 2000, vegna hins svokallaða 2000-vanda sem þó verður vonandi ekki mikill. Það er hins vegar ekki aðalástæðan. Aðalástæðan er sú að upp hafa komið nýir möguleikar í tölvuheiminum til að greiða fyrir því að inn- og útflytjendur geti fullnægt þeim skyldum sem á þá eru lagðar. Þar er um að ræða möguleika einkum fyrir lítil fyrirtæki til að taka upp SMT-tollafgreiðslu með aðstoð internetsins en slík afgreiðsla hefði væntanlega minni tilkostnað í för með sér fyrir alla aðila.

Hér er lagt til að veittur verði ársfrestur til viðbótar til að taka upp töluvædda tollafgreiðsluhætti og talið er að sá tími verði nægilegur fyrir alla aðila til þess að kanna þessa breyttu möguleika sem ég gat um, þ.e. að nota internetið í stað hefðbundinnar tölvuafgreiðslu.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.