Framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:40:22 (2176)

1999-12-02 12:40:22# 125. lþ. 34.7 fundur 66. mál: #A framkvæmdarvald ríkisins í héraði# (Fjarðabyggð, Kjalarneshreppur) frv. 95/1999, Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Frsm. allshn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 254 um frv. til laga um breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

Nefndin hefur fjallað um málið og farið yfir þær umsagnir sem bárust.

Í frv. er lagt til að embætti sýslumannsins í Neskaupstað verði lagt niður og með því fækki stjórnsýsluumdæmum sýslumanna úr 27 í 26. Er samhliða þessu gert ráð fyrir að stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins á Eskifirði verði stækkað sem þessu nemur með breytingu á reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna.

Herra forseti. Hv. allshn. lítur svo á að með þessari breytingu sé ekki verið að skerða þjónustu við íbúa Neskaupstaðar og bendir á að fram komi í grg. að þótt embætti sýslumannsins í Neskaupstað verði lagt niður er gert ráð fyrir að þar verði áfram rekin skrifstofa sýslumanns og útibú lögreglu. Hins vegar verður ávinningur eða sparnaður af þessari framkvæmd eða breytingu. Hann er m.a. fyrirhugað að nýta með því að bæta stöðu löglærðs fulltrúa hjá embætti sýslumannsins á Eskifirði og yrði hann búsettur í Fjarðabyggð.

Þá er einnig lagt til í frv. að lögunum verði breytt til samræmis við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur og það skýrir sig sjálft.

Hv. allshn. mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir álitið rita, eins og hin tvö sem áður voru rakin, allir hv. nefndarmenn í allshn.