Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 17:32:51 (2455)

1999-12-07 17:32:51# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[17:32]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur alls ekki tekið eftir hvað ég var að segja. Ég sagði að í undirbúningi væri að meta öldrunarstofnanir samkvæmt kerfi um hjúkrunarþyngd. Það kerfi er amerískt. Það er til fullt af öðrum slíkum kerfum. Það segir ekkert um að við ætlum að snúa við heilbrigðiskerfinu á Íslandi.

Það er mikil samstaða um það á Norðurlöndum, Englandi og mjög víða í Evrópu að standa þannig að fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. að láta hið opinbera fjármagna heilbrigðisþjónustuna. Um það er samstaða og ég veit ekki til þess að um það séu nokkrar deilur t.d. á Íslandi, í Bretlandi eða á Norðurlöndum. Bæði vinstri og hægri menn standa saman um þetta. Við erum allir sammála um þetta. Meiningar um að menn vilji fara aðrar leiðir eru ekki réttar.

Ég vil taka dæmi frá Englandi. Margrét Thatcher barðist aldrei fyrir því að taka upp amerískar aðferðir við heilbrigðisþjónustuna. Hún var samsinna Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum um að fjármagna heilbrigðiskerfið af hinu opinbera. Það sem hún var að berjast fyrir var að menn ættu að setja heilbrigðiskerfið í viðskiptalegt umhverfi til að aga það. Það er bara allt annar hlutur.

Enginn Íslendingur eða pólitíkus hefur nokkurn tíma talað um að hverfa af þeirri braut sem við höfum verið á hér á Íslandi. Þeirrar skoðunar er enginn og það hefur aldrei komið fram. Ég hef hvergi orðið var við slíkt, hvorki í ræðu né riti. Hv. þm. þarf því ekki að vera svo viðkvæmur þó að mælikerfi á hjúkrunarþyngd hafi upphaflega verið smíðað í Bandaríkjunum.