Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:22:45 (2475)

1999-12-07 19:22:45# 125. lþ. 37.4 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, KLM
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:22]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að það frv. sem hér liggur fyrir um Póst- og fjarskiptastofnun er komið fram. Eins og menn sögðu í umræðum um fjarskiptafrv. hefði verið eðlilegt að þetta frv. hefði komið fram fyrr þannig að hægt hefði verið að ræða þau samhliða. Það var það sem fulltrúar Samfylkingarinnar gagnrýndu og ber að fagna því að þetta skuli vera komið fram.

Með þessu frv. sýnist mér að verið sé að styrkja Póst- og fjarskiptastofnun nokkuð mikið frá fyrri lögum enda ekki óeðlilegt þar sem stofnunin þarf að geta sinnt hlutverki sínu betur enda hefur hlutverkið aukist það mikið á síðustu árum á tímum ört vaxandi fjarskipta. Ég er sem sagt sammála því að styrkja Póst- og fjarskiptastofnun eins og gert er með þessu frv. Frv. er eðlilegt framhald af fjarskiptafrv. og fátt eitt sem kemur þar á óvart.

Í sambandi við samkeppniseftirlit og það allt saman og Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun var ekki kveðið nógu skýrt á um valdamörk milli þessara stofnana, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar. Í þessu frv. eru tekin af að mér sýnist öll tvímæli um þetta enda segir svo í 3. gr. lið 22, með leyfi forseta:

,,Póst- og fjarskiptastofnun skal framfylgja lögum um fjarskipti og póstþjónustu og tryggja að markmið laganna náist. Skal það gert m.a. með því að stuðla að samkeppni og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti í póst- og fjarskiptaþjónustu og rekstri fjarskiptaneta. Stofnunin skal taka til meðferðar mál sem upp koma vegna starfsemi fjarskiptafyrirtækja, póstrekenda og rekstrarleyfishafa. Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun skulu setja sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta bæði fallið innan marka laga um póst- og fjarskiptamál og samkeppnislaga.``

Í athugasemdum með þessu frv. á bls. 9 er einnig kveðið mjög fast á um þetta atriði, um skil milli þessara stofnana og ber auðvitað að fagna því að þetta komi svo skilmerkilega fram. Þetta var eitt af þeim atriðum sem fulltrúar Samfylkingarinnar gagnrýndu en hér sýnist okkur að þetta komi skýrt fram um þessi valdamörk.

Þetta frv. ber vott um það að hæstv. samgrh. leggi áherslu á að hann er ráðherra allra á fjarskiptamarkaðnum, ekki bara stóra risans, Landssímans.

Herra forseti. Mér sýnist að þingmenn Samfylkingarinnar geti stutt þetta mál. Við munum leggja okkar fram í nefnd við að vinna þetta mál en okkur sýnist að þetta frv. sé verulega til bóta í þessum málaflokki.