Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 22:42:22 (2483)

1999-12-07 22:42:22# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[22:42]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Eitt af aðaleinkennum hnattvæðingarinnar, sem svo er nefnd, er að samvinna þjóða eykst jafnt og þétt á alþjóðlegum vettvangi. Slík samvinna á best við og ber í sér mesta von um árangur þegar fengist er við alþjóðleg verkefni eða vanda sem virðir engin landamæri. Umhverfismálin eru líklega besta dæmið um slík sameiginleg verkefni, um hnattrænt verkefni, og það er líka baráttan gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi sem er m.a. viðfangsefni þess samnings sem hér er til umræðu.

Kjarni Schengen-samstarfsins er, eins og segir í till. til þál., með leyfi forseta:

,,... annars vegar að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar að styrkja baráttu samstarfsríkjanna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi, ekki síst ólöglegum innflutningi fíkniefna.``

Nú er það svo, herra forseti, að í almennri umræðu hér á landi um innihald samningsins á liðnum missirum hefur líklega mest púður farið í umfjöllun um hvernig mætti viðhalda ferða- og vegabréfafrelsi innan Norðurlandanna. En Schengen-samstarfið snýst ekki bara um það að Íslendingar losni við að bíða í biðröðum, hvort heldur það er á flugstöðinni í Kastrup eða einhvers staðar annars staðar í Evrópu. Hér er verið að ræða um frjálsa för fólks innan aðildarríkjanna og samstarf lögreglu og yfirvalda í aðildarríkjunum sem er í raun, eða a.m.k. í mínum huga, veigamesti þáttur samningsins. Eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh. veitir þessi samningur lögregluyfirvöldum á Íslandi aðgang að upplýsingum sem annars fengjust ekki.

En það er í samstarfi sem þessu sem einnig þarf að gæta að því að ýtrustu persónuverndar sé gætt í öllum þáttum þess. Í framsögu hæstv. dómsmrh. kom fram að hæstv. dómsmrh. væntir mikils af því samstarfi sem fæst með því að skiptast á upplýsingum um glæpamenn eða aðra þá sem grunaðir eru um refsivert athæfi. En mig langar samt að vekja athygli á því hvernig þetta er orðað í frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Að mínu áliti eru þetta býsna opin ákvæði en nokkuð sem ég hef ekki lagalega þekkingu á, best að taka það fram strax, en hins vegar nokkuð sem ég hygg að muni verða skoðað mjög vandlega af fulltrúum Samfylkingarinnar í þeim þingnefndum sem fjalla um þetta mál.

[22:45]

Í 6. gr. frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið er talað um að heimilt sé að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið í eftirfarandi tilvikum. Þar er tekið fram undir b-lið, með leyfi forseta:

,,þegar meina á útlendingi landgöngu vegna þess að:

1. Hann hefur verið dæmdur hér á landi eða erlendis í fangelsi í a.m.k. eitt ár eða ætla má af öðrum ástæðum að hann muni fremja refsiverðan verknað á Schengen-svæðinu eða

2. ætla má af fyrri hegðun hans eða öðrum ástæðum að tilgangur hans með komu hingað til lands eða á Schengen-svæðið sé að fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða ólöglega upplýsingarstarfsemi ...``

Það má vel vera að fákunnáttu minni um þessi mál sé um að kenna en mér þykja þetta nokkuð opnar heimildir, herra forseti, og ég vona að vönduð umfjöllun um þetta mál í þingnefndum og í umræðum í þingsal muni leiða í ljós hvað í þessu raunverulega felst.

Hér er líka verið að fjalla um hælisleitendur og eftirlit með ólöglegum innflytjendum. Allt eru þetta mjög viðamikil og flókin verkefni. Ég fagna því að það skuli eiga að gera gangskör að því að tryggja eða styrkja réttara sagt réttarstöðu þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu þannig að hælisleitendum sé tryggð sama meðferð, sama hvar þeir æskja hælis. Þetta er nokkuð sem ég tel fela í sér mikilsverða réttarbót.

En mig langar kannski svona rétt að lokum, herra forseti, að vekja athygli á því að í frv. til laga um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu segir í 12. gr. VI. kafla sem heitir Gildistaka, með leyfi forseta:

,,Dómsmálaráðherra ákveður hvenær lög þessi eða einstakir kaflar þeirra öðlast gildi.``

Það má vera að þetta sé nokkuð sem tíðkist við lagasetningu. Ég er samt ekki alveg viss um það og mér þætti vænt um að fá svar við því frá hæstv. dómsmrh. hvers vegna ákvæðið er svona. Ég hef nú reyndar lesið 12. gr. líka en ég sé ekki alveg ástæðu þess að þetta sé svona galopið.

Herra forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar munu vinna vandlega að framgangi þessa máls á vettvangi þeirra þingnefnda sem um það fjalla. Önnur atriði sem kunna að orka tvímælis í þeim málum sem hér hafa verið lögð fram munum við skoða mjög vandlega í starfi þingnefndanna og í öðrum umræðum á hinu háa Alþingi.