Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:51:07 (2652)

1999-12-09 20:51:07# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, KolH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:51]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það sem mig langar að gera að umræðuefni í þessu máli er flýtirinn, stressið, asinn sem einkennir allar hreyfingar hæstv. viðskrh. í málinu. Til marks um það er kannski allur óróinn sem einkenndi hæstv. ráðherrann við upphaf umræðunnar í morgun þegar hann gat vart tyllt sér nema eins og spörfugl rétt á stólbríkina en var floginn áður en ræðumenn gátu snúið sér við. En hæstv. ráðherra hefur róast eftir því sem liðið hefur á daginn.

Það er rétt að rifja upp að hér er á ferðinni mál sem hæstv. viðskrh. hafði sérstaklega boðað árið 1997 að kæmi til kasta þingsins, en ekki núna kortéri fyrir jól. Nei, nei, hann ætlaði ekki einu sinni að láta þetta koma fram á þessu ári og ekki heldur á því næsta.

Herra forseti. Í framsögu sinni fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands á 121. löggjafarþingi, sagði hæstv. viðskrh., með leyfi forseta:

,,Þau sjónarmið hafa komið fram að óvissa um eignarhald hlutafélagsbankanna geti leitt til þess að þeir eigi erfiðara með að ná hagstæðum kjörum í lánasamningum við erlenda lánveitendur. Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagabankanna er miðað við að ríkissjóður selji ekki hlutabréf sín í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra. Hins vegar er gert ráð fyrir að ráðherra getið heimilað útboð á nýju hlutafé í hlutafélagsbönkunum. Með þessum hætti er mögulegt að styrkja eiginfjárstöðu bankanna án þess að leita til ríkissjóðs, jafnframt því sem utanaðkomandi aðilum gefst færi á að eignast hlut í þeim.``

Svo mörg voru þau orð þá, virðulegi forseti.

Ekki reyndist mikið hald í þessum yfirlýsingum frekar en ýmsum sem gefnar hafa verið þegar þessi ríkisstjórn hefur verið að breyta rekstrarformi fyrirtækja í eigu almennings. Þá hafa verið gefin fögur fyrirheit, m.a. á þá leið að verið sé að bregðast við breyttum aðstæðum með hagsmuni viðkomandi fyrirtækja í huga og má í því sambandi vísa til þess þegar verið var að ,,háeffa`` Póst og síma fyrir skemmstu.

Það er sannarlega gagnrýnisvert, herra forseti, hvernig þetta mál kemur til meðferðar í þinginu og hafa aðrir ræðumenn gert svipaðar athugasemdir. Málið er lagt fram 30. nóvember, kemur til umræðu 3. desember. Það er afgreitt til nefndar 6. desember og það er auglýst í fjölmiðlum í dag að salan eigi að fara fram 15.--17. desember. Það er gott að geta verið svona viss um mátt sinn. Og hæstv. viðskrh. leyfir sér að sýna pirring yfir því að menn skuli bara ekki leyfa þessum hugmyndum hans að renna ljúflega niður með desemberkakóinu og nýbökuðum piparkökum. Það er bara eins og það sé varla að nokkru að hyggja, þetta sé allt saman nokkuð sjálfgefið og einfalt. Hér er verið að tala um sölu á eignum sem eru metnar á 6 milljarða króna og það á bara að drífa þetta af eins og verið sé að selja tyggjókúlur.

Herra forseti. Er það ekki einmitt við svona málsmeðferð sem rétt er að menn staldri örlítið við og velti því fyrir sér hvernig samskiptum löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins er háttað? Framganga af þessu tagi einkennist af lítilli virðingu fyrir hv. Alþingi. Og það er kannski ekki úr vegi að minna hæstv. ríkisstjórn á að Alþingi er löggjafarsamkunda þjóðarinnar en ekki þjónustustofnun framkvæmdarvaldsins sem hefur það hlutverk að stimpla pappíra eftir óskum hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Það er líka umhugsunarvert að nú skuli hæstv. viðskrh. hlaupa upp til handa og fóta með þessum hætti rétt fyrir jól og egna fólk út á markaðinn þegar það er veikt fyrir vegna þess kaupæðis sem stendur yfir á þessum tíma árs fyrir tilstuðlan markaðsaflanna í samfélaginu. Mér finnst ábyrgðarhluti, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli demba sér með 6 milljarða eignarhlut í bönkum út á markaðinn og ala á þeirri hysteríu sem þar fer í gang alla jafna rétt fyrir áramót vegna brýninga fjármálastofnana og auglýsingaskrums um skattafslátt handa viðskiptavinum sínum.

Þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi uppgötvað allt í einu að nú eru að koma jól og áramót, ber það vott um hrokafulla afstöðu til hv. Alþingis að hann skuli svo viss um að hann geti fengið Alþingi fyrirhafnarlaust með sér í þann leik að kynda undir sölu hlutabréfa í einhverju mesta óðagoti sem ríkir í samfélaginu og taka gagnrýnislaust undir með honum í auglýsingafrasanum ,,gefið sparnað í jólagjöf``. Herra forseti. Væri ekki hægt að framkvæma sölu af þessu tagi á einhvern smekklegri hátt, með örlítið meiri virðingu fyrir fólki en hér virðist vera höfð að leiðarljósi?

Það þarf auðvitað ekki að koma neinum á óvart að engar ráðstafanir skuli vera gerðar til að tryggja dreifða eignaraðild í bönkunum við þessa sölu, jafnvel þó að í athugasemdum sem frv. fylgja sé talað um að hlutabréfin verði seld í dreifðri sölu og leggja skuli áherslu á dreifða eignaraðild. Hvað þýðir þetta, virðulegur forseti? Jú, það á að selja mörgum --- voða mörgum, eins og þegar nýja hlutaféð var boðið út á sínum tíma --- en það er ekki gerð nokkur einasta tilraun til að hafa áhrif á það hvað síðan gerist á hinum frjálsa fjármagnsmarkaði eftir að hlutabréfin hafa einu seinni verið seld. Það er vissulega í fullu samræmi við stefnu Framsfl. í þessum málum, að ekki sé nú talað um málflutning hæstv. viðskrh. að undanförnu sem setur allt sitt traust á markaðinn og telur að hann skuli einfaldlega ráða framtíð fyrirtækja af þessu tagi, samanber söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem ætti að vera öllum hæstv. ráðherrum í fersku minni, svo ekki sé meira sagt.

Herra forseti. Ég hlýt að spyrja hver tilgangurinn sé með yfirlýsingum af þessu tagi því tæplega verða bréfin seld með kvöðum þess efnis að menn skuli eiga þau um aldur og ævi. Ekki færi það nú sérlega vel saman við það markmið að auka verðgildi eignarhluta ríkisins í bönkunum, eða hvað? Það er nákvæmlega ekkert í tali hæstv. viðskrh. sem kemur að haldi varðandi dreifða eignaraðild. Og reynslan sýnir okkur að hjá stórum hluta þeirra sem kaupa bréfin, staldra þau afar stutt við. Þess vegna segi ég, herra forseti, að það er holur hljómur í því tali að tryggð skuli dreifð eignaraðild. Það er ekkert gert til að fylgja því eftir.

Í þessu sambandi vil ég minna á 6. mál þingsins, frv. til laga um dreifða eignaraðild að bönkum og sparisjóðum, sem flutt er af tveim hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þar eru lagðar fram vandlega útfærðar tillögur um hvernig megi tryggja dreifða eignaraðild að slíkum fyrirtækjum. Þetta mál hefur legið fyrir síðan 4. október sl. og verið til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. síðan 15. október. Ef stjórnarliðar meintu eitthvað með því sem þeir hafa sagt um dreifða eignaraðild, þá væri þetta frv. líklega komið til afgreiðslu, herra forseti, eða hvað?

Hæstv. viðskrh. hefur bent okkur á að þessi aðgerð sem er hér til umræðu sé í anda stefnuyfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar þótt tímasetningin stangist á við gefin loforð sem rifjuð voru upp í upphafi máls míns. Og nú á að halda áfram á þessari braut án þess að menn lyfti svo mikið sem litla fingri til að setja reglur um hámarkseignarhlut einstaklinga eða tengdra eða skyldra aðila. Markaðurinn á bara að sjá um þetta. Mögulega kemur það svo á daginn á endanum, herra forseti, að bitinn smellpassi á ginið á kolbrabbanum eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat um áðan.

Herra forseti. Það er viðurkennd staðreynd að íslenski hlutabréfamarkaðurinn er dálítið frábrugðinn því sem gerist víða erlendis, m.a. vegna þess að hann er lítill, viðkvæmur og hann hefur ekki slitið barnsskónum. Um þetta deilum við ekki. En setjum svo að menn beri umhyggju fyrir þessum vaxandi markaði og ætli honum að ná þroska svo hann plumi sig í framtíðinni sem fullburða ungur markaður sem mark er takandi á, sterkur í smæð sinni, fær um að standa undir þeirri ábyrgð sem á herðar hans er lögð, þá er rétt að huga vel að þeim skrefum sem tekin eru á því mótunarskeiði sem nú stendur yfir. Sá stíll sem hæstv. viðskrh. beitir við þessa sölu, þær aðferðir sem eru viðhafðar, eru langt frá því að vera til þess fallnar að auka reisn og ábyrgð markaðarins eða virðingu neytenda fyrir honum. Ef einhver á að bera ábyrgð á því að markaðnum og þeim sem sækja eitthvað til hans farnist vel, þá er það ekki síst hæstv. viðskrh. Það er hann sem ber ábyrgð á því hvernig eignarhlutur í ríkisbönkum er markaðssettur. Þar af leiðandi er hann að hluta til líka ábyrgur fyrir viðtökum neytenda.

[21:00]

Herra forseti. Að mínu mati er hægt að fara að slíkum hlutum á fágaðan og yfirvegaðan hátt. En það er líka hægt að skilja alla fágun eftir heima og rótast af stað með hamagangi og látum og æsa fólk til hlutafjárkaupa til hægri og vinstri þannig að allir fái á tilfinninguna að þeir verði að æða af stað og fylgja straumnum svo að ástandið minnir á köflum einna helst á kapphlaup landnemanna um bestu landskikana í Oklahoma og á fleiri svæðum villta vestursins. Ástand af þessu tagi er ekki til fyrirmyndar, herra forseti, og það er á ábyrgð hæstv. viðskrh. að hafa áhrif á það.

Í athugasemd hæstv. viðskrh. um ástæður þess að ráðist er í þessa sölu nú með því offorsi sem ég hef áður lýst, segir, með leyfi forseta:

,,Hagstætt árferði á hlutabréfamarkaði gerir það að verkum að ástæða er til að tryggja framangreinda dreifingu hlutafjárins nú þegar. Með dreifðri sölu til almennings í hlutafélagabönkunum tveimur er hvatt til aukins sparnaðar heimilanna, hlutabréfamarkaður efldur og verðmyndun hlutabréfa í bönkunum treyst. Almenningi gefst jafnframt kostur á að nýta sér kaup hlutabréfa í bönkunum til skattafsláttar í samræmi við reglur ríkisskattstjóra.``

Síðan segir að verði frumvarpið að lögum á haustþingi verði ráðist í söluna nú strax fyrir áramót.

Hvetja til aukins sparnaðar heimilanna, herra forseti. Auðvitað stansaði maður við þessa yfirlýsingu í athugasemdum hæstv. ráðherra. Ég fór satt að segja að efast um minni mitt svo að ég ákvað að líta yfir það hvernig útboð hlutafjár í bönkunum hefði þróast á síðasta ári, 1998. Þá kemur það í ljós sem mig minnti að t.d. þegar boðið var út hlutafé í Búnaðarbankanum var slagurinn um kennitölurnar svo harður að Landsbankinn auglýsti sérstaklega að í öllum útibúum Landsbankans og Landsbréfa væri hægt að skrifa sig fyrir hlutafé og fá hjá bankanum sérstök hlutabréfalán til að kaupa bréf í Búnaðarbankanum. Fjármálastofnanir landsins buðu svo hver annarri betra gengi til að kaupa hlutabréfin af almenningi, jafnharðan og þau voru runnin úr greipum hins opinbera. Enda er það nú svo að hluthöfum í Landsbanka, Búnaðarbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hefur fækkað með ótrúlegum hraða. Þeir voru 116 þús. þegar salan fór fram en voru orðnir tæp 40 þús. í lok október. Hverjar voru afleiðingarnar? Skuldir heimilanna jukust um 54 milljarða á árinu 1998, m.a. vegna hlutabréfakaupa, og voru skuldir 136% af ráðstöfunartekjum heimilanna árið 1997. Já, herra forseti. Fjölskyldurnar í landinu eiga lífsgæði sín undir bönkunum og rúmum lántökuheimildum þeirra á feitum vöxtum. Þannig er nú veruleikinn í þessum efnum. Fagurgalinn um hagnaðinn og skattafsláttinn hefur nefnilega þessa hlið á sér líka. Fólk skuldsetur sig langt umfram greiðslugetu til þess að geta keypt hlutabréf í stressi rétt fyrir jól og fengið skattafslátt en hefur enga tryggingu fyrir því að það borgi sig að taka þessi lán þegar öllu er á botninn hvolft. Og, herra forseti, það kemur að skuldadögum á heimilum þessa lands.

Nú kunna margir að segja sem svo að það sé ekki í verkahring hv. þm. eða hæstv. ráðherra að hafa vit fyrir fólki. En mér finnst vægast sagt hæpið að klæða þennan gjörning í þann búning að verið sé að vinna að því að auka sparnað heimilanna án þess að gera grein fyrir öllum hliðum þess máls. Það eykur heildarsparnað í landinu varla ýkja mikið að taka lán til þess að spara það sem maður fær lánað, eða hvað? Ætli skuldir heimilanna séu nú beinlínis með þeim hætti að á þær sé bætandi? Fyrstu níu mánuði ársins 1998 jukust þær um 12% miðað við sama tíma ársins þar á undan og ekki nóg með það, á sama tíma minnkaði sparnaður heimilanna en einkaneyslan jókst um 10%. Þessar tölur tala skýru máli, herra forseti, og ég verð að segja að alveg eins og er að þessar staðreyndir benda ekki beinlínis í þá átt að leikflétta hæstv. viðskrh. varðandi sparnað heimilanna með hlutabréfakaupum muni ganga upp.

Hæstv. viðskrh. sagði þegar Búnaðarbankanum og Landsbankanum var breytt í hlutafélög 1997 að hagsmunir viðskiptabankanna væru prýðilega tryggðir eftir sem áður. Mig langar að ræða þennan þátt málsins alveg sérstaklega út frá atvinnu- og byggðaþróun í landinu. Þá er fyrst að geta þess að það er greinilega stefna hæstv. ríkisstjórnar að selja allan eignarhlut sinn í þessum bönkum enda segir í athugasemdum við það frv. sem hér er til umræðu að ekki liggi fyrir hvernig ríkið hyggist selja afganginn af bönkunum. Ekki er talað um hvort heldur hvernig þeir verði seldir fyrir fullt og allt. Í ljósi reynslunnar er ekki mikið gefandi fyrir yfirlýsingar um að ekki standi til að selja meira en tilteknar prósentur, það liggur fyrir að þetta er stefna hæstv. ríkisstjórnar.

Sama ríkisstjórn, með sömu ráðherrum, segist á sama tíma hafa gríðarlegar áhyggjur af byggðaþróuninni og atvinnulífi hinna dreifðu byggða. Skýrsla eftir skýrslu sýnir okkur að á mörgum svæðum er byggðin orðin svo brothætt að hún þolir bókstaflega ekki frekari fækkun. Ekki þarf að rekja það fyrir hv. þm. að mörg fyrirtæki, sem eru burðarásar atvinnulífs í sínum byggðum, hafa átt í erfiðleikum að undanförnu af ýmsum tilteknum ástæðum, fyrrgreindum ástæðum. Hvernig verður staða þessara fyrirtækja og atvinnulífsins í byggðunum þegar bankarnir verða komnir í hreina einkaeign? Ég held að það sé a.m.k. einnar messu virði að velta því dálítið fyrir sér. Hvað þýðir það þegar ákvöxtun fjármagnsins og mögulegur arður eigendanna verður orðinn æðsta boðorðið við stjórn bankanna? Það er ekki líklegt að það auki á tilfinningu bankanna eða eigenda þeirra fyrir þörfum hinna dreifðu byggða. Hvaða skyldur hafa fjármagnseigendur við byggðarlögin eða við landsmenn yfirleitt? Hluthafar munu gera þá kröfu að eignarhlutur þeirra vaxi að verðgildi og það kemur til með að stjórna gerðum bankanna, nákvæmlega það og ekkert annað. Það verður ekki um sanngirni að ræða í ljósi aðstæðna. Bankarnir munu enn þá síður en áður taka áhættu í útlánum, þeir munu að öllum líkindum gera enn meiri kröfur um veð og tryggingar en ríkisbankarnir hafa gert til dagsins í dag. Við höfum reyndar fengið forsmekkinn af þessu, herra forseti, þegar bankastjóri í Reykjavík neitaði konu vestur á fjörðum um lán á þeirri forsendu að húseignin hennar væri harla lítils virði og sendi henni til sannindamerkis útskrift af fréttavef Vísis þar sem var sagt frá lágu fasteignaverði í heimabyggð hennar. Málið er ekki flóknara en það, herra forseti, að bankastjórinn gaf ekkert fyrir veð í þessu húsi af því að það var niðurkomið í byggðarlagi sem átti í erfiðleikum. Dæmdi bara staðinn úr leik með einu pennastriki og konuna ekki borgunarmann fyrir skuldum, þó er hún dæmd til að borga fasteignagjöld sambærileg við það sem hún þyrfti að greiða væri húsið hennar byggt í Suðurhlíðum Kópavogs.

Við skulum átta okkur á því, herra forseti, hvað það þýðir að binda enda á lýðræðislega stjórn þessara mikilvægu stofnana sem bankarnir eru. Það gæti þýtt að arðsemiskrafa yfirskyggði alla samúð og ekki verði lengur svigrúm til að taka ákvarðanir af því tagi sem ríkisbankarnir hafa gert hingað til af pólitískum ástæðum að leggja sitt af mörkum við að efla byggð í landinu. Hvað ætla menn þá að gera þegar ekki verður lengur neitt svigrúm fyrir samúð? Á kannski að vísa á Byggðastofnun sem er á góðri leið með að hverfa ofan í eina af skúffunum hjá hæstv. iðn.- og viðskrh.? Það verður tæpast á vísan að róa ef hæstv. ráðherra fær einhverju ráðið.

Sú markaðsvæðing sem hér er verið að hamast við er stórhættuleg fyrir byggðaþróun í landinu. Það er vitað mál að dreifbýlið mun lengi enn standa lakar að vígi þegar kemur að því að útvega fjármagn til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar. Ef markaðurinn á að verða einráður á því sviði held ég að við getum hætt að tala um að styrkja byggð í landinu. Það væri líka miklu heiðarlegra ef menn hafa virkilega þá framtíðarsýn að markaðurinn skuli ráða öllu, bæði lifandi og dauðu. Ég sé ekki fyrir mér að risastórir ópersónulegir einkabankar með arðsemiskröfuna eina að leiðarljósi muni leggja eitthvað af mörkum þegar við kveða neyðaróp á borð þau sem nú heyrast frá hinu dreifðu byggðum. Hvaða arðsemisvon sjá fjármagnseigendur að óbreyttu í Breiðdalsvík, Þingeyri, Flateyri, Hrísey, Ólafsfirði? Ætli þessir staðir mundu eiga von á mikilli fyrirgreiðslu hjá bönkunum þegar allt kapp verður lagt á að ávaxta fé hluthafanna? Ég leyfi mér að efast. Er ekki miklu líklegra að slíkir bankar muni keppast við að draga svo mjög úr áhættu í útlánastarfsemi sinni að þeir geti boðið hagstæð lánakjör þeim viðskiptavinum sem þeir hafa mest viðskipti við, t.d. stórar verslanakeðjur sem eru í endurfjárfestingarhugleiðingum í Reykjavík, eða áhugafjárfesta um stóriðju á Reyðarfirði, enda verða þeir í samkeppni við erlendar fjármálastofnanir um þau viðskipti?

Eitt af því sem nefnt hefur verið til sögunnar til stuðnings þessari sölu er að hún dragi úr þenslu í efnahagslífinu. Ég held að það sé vægt til orða tekið, herra forseti, þó að ég segi að mikil óvissa sé á ferðum. Má í því sambandi vísa til þeirra tölulegu staðreynda sem ég nefndi áðan varðandi þróunina eftir fyrri einkavæðingaraðgerðir á þessu sviði. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að þróunin nú verði ekki með sama hætti og áður. Þegar hluthöfunum fækkar um tvo þriðju á jafnskömmum tíma er það væntanlega fyrir það að menn bíða ekki boðanna og innleysa strax hagnaðinn af hlutabréfakaupunum sínum. Þegar gengið á hlutabréfum í bönkunum hækkar til mikilla muna og þau eru komin í eigu almennings liggur í hlutarins eðli að fólk selur bréfin fljótt og hirðir mismuninn. Þar með er það fjármagn komið í umferð á nýjan leik og þá verður nú lítið um tilraunir til að draga úr þenslunni, einkum og sér í lagi þegar það eru fjármálastofnanirnar sjálfar sem eru að kaupa bréf hver í annarri af almenningi sem í einfeldni sinni og von um einhvern aukaskilding í budduna einhverja stutta stund tók þátt í hlutafjárútboðinu.

Út af fyrir sig er nokkuð kyndugt hvað hæstv. viðskrh. er lítt banginn við að segja okkur hvað þessi einkavæðing muni nú hafa í alla staði góð áhrif á þjóðarbúið án þess að fyrir því sé nokkur einasta vissa, ekki síst í ljósi þess að sami hæstv. ráðherra stóð í þessum sama ræðustóli fyrir fáeinum dögum og lýsti því fyrir okkur að það væri alveg útilokað að spá í hvað gerðist á árinu 2000, m.a. vegna þess að það væru svo margir dagar í því, einir 365, en það er víst búið að hrella hann með því að hann hafi ekki haft alveg rétt fyrir sér þar, það er víst hlaupár á næsta ári. Óvissan um þetta mál sem hér um ræðir er þá jafnmikil eða svo mikil sem því nemur.

Herra forseti. Þegar það liggur fyrir að hér er ekkert í hendi varðandi aukinn sparnað heimilanna og minni þenslu í efnahagslífinu er eðlilegt að velta því fyrir sér hverjar séu hinar raunverulegu ástæður þess að ráðist er í þessa sölu einmitt núna. Hæstv. viðskrh. leggur mikla áherslu á að hafa bankana skráða á Verðbréfaþinginu og telur það nú þegar hafa haft afskaplega góð áhrif á rekstur þeirra. Það hafi verið svo gott aðhald fyrir stjórnendur bankanna að fá álit markaðarins á hverjum degi í gegnum gengi hlutabréfa í bönkunum og árangurinn sjáist greinilega í batnandi afkomu bankanna. Samt sem áður hef ég á tilfinningunni, herra forseti, að hér sé ekki síst verið að selja eignir til að laga greiðslujöfnuð ríkissjóðs enda eru útgjaldaskýin heldur betur farin að skyggja á sólskinsfjárlögin sem lögð voru fram fyrir yfirstandandi ár. Það skyldi þó aldrei vera að milljarðarnir sex sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ná inn með þessari einkavæðingu kæmu sér vel til að vega á móti útgjaldaaukningunni sem hefur skapraunað hæstv. fjmrh. svo mjög að undanförnu?

Herra forseti. Hér er allt of mörgum spurningum ósvarað, allt of mikil óvissa ríkjandi og allt of mikil fljótaskrift á hlutunum. Er ekki hyggilegra að ganga hægt um gleðinnar dyr og gá að sér, skoða allar hliðar málsins og vega hagsmuni ólíkra aðila sem hlut eiga að máli?