Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 14:53:29 (2692)

1999-12-10 14:53:29# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í upphafi vil ég fara nokkrum orðum um störf fjárln. Frá því í byrjun september hafa fulltrúar hinna ýmsu sveitarfélaga, stofnana og félagasamtaka og einstaklingar komið fyrir nefndina. Þeir hafa borið fram erindi sín, greint frá áherslum, leitað viðurkenningar og óskað framlaga. Þetta fólk hefur lagt á sig mikla vinnu, oft komið um langan veg og lagt fram vönduð erindi.

Herra forseti. Ég tel þessa fundi og heimsóknir þessa fólks afar þýðingarmiklar fyrir fjárlagagerðina og vinnu Alþingis. Því er mikilvægt að halda þessum glugga, þessari hurð opinni til þeirra samskipta Alþingis við lífið í landinu sem þessar heimsóknir og erindaflutningur býður upp á.

Þá vil ég, herra forseti, þakka meðnefndarmönnum mínum í fjárln. samstarfið við undirbúning frv. til fjárlaga til 2. umr. Ég vil þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir sanngjarna og góða nefndarstjórn. Þá var gott að vita af öruggu og metnaðarfullu starfsfólki sem starfar með fjárln., bæði meiri hluta og minni hluta nefndarinnar, við þessa umfangsmiklu og vandasömu vinnu.

Minni hluti fjárln., fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og fulltrúar Samfylkingarinnar, standa hér saman að ítarlegu nál. við 2. umr. fjárlaga. Ég leyfi mér að vísa til þess varðandi megináherslur. Ég þakka nefndarmönnum í minni hlutanum fyrir gott samstarf við þetta nál. og sendi góðar kveðjur til hv. þm. Gísla S. Einarssonar fjárlaganefndarmanns sem ekki getur verið viðstaddur 2. umr. fjárlagafrumvarpsins.

Herra forseti. Af því sem ég hef kynnst er fjárln. skipuð afar hæfum fulltrúum löggjafarsamkomunnar. Ég vil þó vekja athygli á að af 11 ágætum nefndarmönnum er aðeins ein kona. Sú skipan finnst mér sérstakt íhugunarefni miðað við kynjaskipan Alþingis þar sem 23 konur sitja, eða 35% þingmanna.

Herra forseti. Ég skil hlutverk fjárln. svo að hún beri ábyrgð á að birta vilja, stefnu og sýn Alþingis í skattlagningu og tekjuöflun til ríkisins, til samneyslunnar. Fjárln. ber að gera tillögur um mörkun áherslna í útgjöldum til hennar og tillögur að fjárveitingum í einstaka liði eða málaflokka. Ljóst er að ekki er hægt að uppfylla allar óskir og væntingar allra í því tilliti.

Herra forseti. Þó Alþingi setji lög um verkefni og útgjöld til hinna ýmsu málaflokka þá hljóta þau ekki fullnustu fyrr en við ákvörðun í fjárlögum á hverjum tíma, hvort heldur er til tekna eða gjalda. Herra forseti. Ég segi þetta til að draga fram mikilvægi og ábyrgð fjárln., þá ábyrgð sem hvílir á trausti og öryggi í allri vinnu og umræðu um gerð fjárlaga. Ég tel því afar mikilvægt að vinna hennar og skil til þingsins njóti fullrar virðingar og forgangs gagnvart öðrum þingmálum sem ekki hafa sama mikilvægi og fjárlög íslenska ríkisins.

Í þessu sambandi get ég ekki annað en bent á þá dagskrá sem lögð er fyrir daginn í dag. Auk 2. umr. um fjárlög, sem er ein aðalumræða fjárlagagerðarinnar, er settur á dagskrá fjöldinn allur af góðum málum en með fullri virðingu fyrir þeim hefði mér fundist að á þessum degi hefði átt að setja fjárlagaumræðuna eina á dagskrá.

Herra forseti. Ég hlýt að vara við þeim mikla þrýstingi framkvæmdarvaldsins og tilhneigingu til að skipa löggjafanum fyrir verkum. Framkvæmdarvaldið virðist líta á fjárln. og Alþingi sem eins konar afgreiðslustofnun fyrir áður teknar ákvarðanir á ýmsum stigum framkvæmdarvaldsins. Þær eru síðan bornar inn í þingið og óskað eftir afgreiðslu á þeim í skjóli þingmeirihlutans eins og þingið stendur nú frammi fyrir varðandi afgreiðslu fjáraukalaga.

Ég hef ítrekað bent á, bæði við 1. og 2. umr. fjáraukalaga og við 1. umr. fjárlaga, að tímasetning og beiting fjáraukalaga eins og nú tíðkast er afar ólýðræðisleg og gefur tilefni til ómarkvissrar fjármálastjórnar framkvæmdarvaldsins. Ég hef lagt til að tekin verði upp þau vinnubrögð að fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár séu unnin og samþykkt að vori og svo aftur snemma hausts ef nauðsyn krefur, svipað og tíðkast í ýmsum nágrannalöndum okkar. Þannig væri tryggt að í megintilvikum taki Alþingi ákvörðun um fjárveitingar fyrir fram en sé ekki stimpiltæki á þegar orðna hluti.

Herra forseti. Sú tilhneiging verður æ ríkari að fjármagn til stórra málaflokka fari óskipt inn í ráðuneytin. Þeim er síðan falið að skipta þeim, oft á tíðum eftir reiknilíkönum eða öðrum reglum sem framkvæmdarvaldið sjálft setur eða hefur sterka íhlutun um þótt tillögur til skiptinga séu enn í flestum tilfellum tilkynntar eða bornar undir fjárln. Þarna er þó oft æði lítið svigrúm til að koma að pólitískri stefnumörkun þó um það sé gefin leiðsögn í lögum um viðkomandi verkefni og málaflokka. Ég vara alvarlega við þessari þróun, við oftrú og öfgum í notkun miðstýrðra reiknilíkana í útfærslu pólitískra ákvarðana. Þetta á við um alla stjórnsýslu. Ég bendi t.d. á að bara á vegum menntmrn. eru hátt í 2 milljarðar kr. færðir á óskipta liði sem menntmrn. skiptir eftir ýmsum reglum en að vísu með beinni og óbeinni þátttöku fjárln.

[15:00]

Það fjárlagafrv. sem liggur fyrir til 2. umr. tekur mið af aðstæðum í þjóðfélaginu. En eins og hér hefur verið drepið á og rakið mjög ítarlega ætti það að vera höfuðmarkmið fjárlagagerðar við núverandi aðstæður að koma í veg fyrir að misskipting fari vaxandi í þjóðfélaginu. En því miður bendir margt í þveröfuga átt. Þrátt fyrir margendurtekin loforð ríkisstjórnarinnar um að draga úr jaðarsköttum er ljóst af frv. að ekki stendur til að gera neinar ráðstafanir í þeim efnum. Sama er að segja um málefni öryrkja og aldraðra og skal í því samhengi minnt á þá ógæfulegu ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta ári að nota svigrúm sitt í ríkisfjármálum til almennra skattalækkana í stað þess að bæta kjör þessara hópa. Röng skattastefna af þessu tagi hefur ýtt undir almenna þenslu svo ekki sé minnst á þau mistök að ráðast í stórfellda einkavæðingu sem auglýst var undir formerkjum almenns gróða fyrir þjóðina og skapaði þannig stórkostlegar væntingar sem juku á þensluna.

Þá er ótalin þenslan í húsnæðiskerfinu sem er bein afleiðing hinnar óheillavænlegu búsetuþróunar í landinu. Frv. ríkisstjórnarinnar til fjárlaga vísar áfram á sömu þróun í þessum efnum. Verðbólgan í landinu er orðin mun meiri en í nágrannalöndum okkar, raunar tvöfalt til þrefalt meiri. Aukinn viðskiptahalli er mikið áhyggjuefni og sívaxandi skuldasöfnun heimilanna sömuleiðis. Hún á sér að stærstum hluta rætur í neyslu en ekki fjárfestingu og þar af leiðandi standa oft og tíðum ekki auknar eignir á bak við þessa skuldasöfnun.

Herra forseti. Einnig ríkir mikil óvissa um þjóðhagslegar forsendur fjárlaganna vegna komandi kjarasamninga, þróunar við framleiðslu og verðlag mikilvægra sjávarafurða.

Brtt. meiri hlutans hljóða upp á 3,6 milljarða kr. og er stærsti hluti viðbótarinnar til heilbrigðiskerfisins eða 2,3 milljarðar. Samt sem áður nægja þessar ráðstafanir engan veginn til að koma heilbrigðismálunum í landinu á réttan kjöl og ríkisstjórnin virðist ætla að grípa til þess ráðs að gera forstöðumenn heilbrigðisstofnana að sökudólgum í þessu máli. Herra forseti. Fjmrh. getur ekki skotið sér undan ábyrgð á þessum vanda frekar en heilbrrh. enda hafa stofnanirnar hvorki fengið viðeigandi stuðning né fyrirmæli fyrir vinnu sína.

Margt bendir til þess að í menntamálum sé einnig um uppsafnaðan vanda að glíma þrátt fyrir tveggja milljarða útgjaldaaukningu á milli ára. Nauðsynlegt er að þessi málaflokkur verði skoðaður vandlega og með það að markmiði að leysa fjárhagsvanda skólanna og tryggja jafnrétti til náms betur en nú er gert.

Einn helsti vandi samfélags okkar er sú gífurlega byggðaröskun sem stjórnvöldum hefur algjörlega mistekist að sporna gegn. Straumurinn hingað á höfuðborgarsvæðið hefur valdið mikilli þenslu í húsnæðiskerfinu, leitt til aukinnar verðbólgu og skuldasöfnun heimilanna og afar erfiðrar fjárhags- og greiðslustöðu sveitarfélaga vítt og breitt um landið. Jafnframt býr fjöldi lífeyrisþega við afar bág kjör og fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar hafa aðstæður margra í þeim hópi versnað mjög í góðærinu umtalaða. Frá árinu 1993 hefur grunnlífeyrir og tekjutrygging hækkað helmingi minna en lágmarkslaun og á sama tíma hefur frítekjumarkið vegna atvinnutekna hækkað helmingi minna en launavísitalan. Skattleysismörkin hafa þróast þannig að lífeyrisþegi sem lifir aðeins af tryggingabótum þarf nú að greiða 40 þús. kr. í skatt af bótunum á hverju ári.

Þær meginbreytingar sem meiri hlutinn leggur til við 2. umr. fjárlaga eru breytingar í heilbrigðiskerfinu og á fjármagni til heilbrigðiskerfisins. Vissulega ber að fagna því að tekið skuli á þessum málum og gefinn sá pólitíski tónn að ætlunin sé að standa vörð um heilbrigðiskerfið í landinu og það er vel. Þó eins og, herra forseti, ég hef bent á að inn í það eru ekki komnir liðir eins og kjarasamningar frá sjúkraliðum og starfsfólki á kjarasamningum Alþýðusambands Íslands og til þess er ekki heldur tekið við gerð þessara fjárlaga, í tillögum fjárlaga nú. Líklegt er að þessir hópar muni fara fram á mjög eðlilega hliðstæðar kjarabætur og aðrir hópar heilbrigðisstéttanna hafa fengið og er það í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. En þarna er enn þá um ógreidda skuld að ræða.

Þá má og benda á að sjúkrahúsin og heilsugæslustöðvarnar, sem fá nú bættan sinn halla að langmestu leyti, standa líka misjafnlega. Þær eru bæði misjafnlega staddar í kjarasamningum, þær eru misjafnlega staddar í tækjum og búnaði og aðstöðu þannig að vafalaust munu þær líka óska eftir auknu réttlæti til að jafna hlut sinn gagnvart þeim sem hafa sótt fram.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á aukinn jöfnuð í samfélaginu, hún leggur megináherslu á að tekið verði á stærstu vandamálunum sem við stöndum frammi fyrir, það eru byggðamál, menntamál og umhverfismál og við flytjum einmitt tillögur sem lúta að því.

Herra forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir þeim áherslum sem mótast í brtt. okkar en síðar verður mælt fyrir þeim sérstaklega.

Herra forseti. Þeim brtt. sem við flytjum og birtast á þskj. 352, 353, 354 og 355 má skipta í nokkra meginflokka. Einn flokkurinn snýr að byggðamálum og þar leggjum við afar mikla áherslu eflingu framhalds- og fjarnáms á landsbyggðinni því að fátt er mikilvægara fyrir byggðirnar en að geta sótt nám sitt heima. Við höfum þó ákveðið að bíða með tillöguflutning varðandi eflingu fjarskiptakerfisins en eins og hefur komið fram í fréttum, hæstv. forseti, er ljóst að gagnaflutningakerfi símans er löngu sprungið og skólar vítt og breitt um landið í hinum dreifðu byggðum hafa ekki aðgang að þeirri nútímatækni sem er þó verið að guma af að sé á að byggja og styrkja til framtíðar.

Herra forseti. Við viljum draga fram vanda sauðfjárbænda. Við viljum draga fram þann mikla vanda sem þeir standa frammi fyrir í stórkostlegri tekjurýrnun og við teljum að of langt sé að bíða þess að gengið verði frá nýjum samningi milli sauðfjárbænda og ríkisins og teljum að grípa þurfi nú þegar til jöfnunaraðgerða, tekjujöfnunaraðgerða á næsta ári. Þess vegna drögum við það sérstaklega fram.

En sérstaklega, herra forseti, drögum við fram vegamálin. Í þáltill. Alþingis er lögð þung áhersla á samgöngumál og í tillögu okkar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um átak í byggðamálum er einmitt dregin sérstaklega fram nauðsyn á að hraða framkvæmdum því að fátt er mikilvægara en góðar samgöngur. Við leggjum ekki aðeins mikla áherslu á stofnvegakerfið heldur safn- og tengivegakerfi og styrkvegina, vegina sem tengja byggðirnar vítt og breitt um landið saman sem hefur orðið mjög út undan í fjárframlögum til vegagerðar á síðustu árum. Við bendum líka á tvöföldun einbreiðra brúa en þær eru miklir og hættulegir samgönguörðugleikar vítt og breitt um landið og þarf ekki að rekja hér.

En síðast en ekki síst viljum við benda á jarðgangamálin. Í fjárlagafrv. er hvergi lagt fé til jarðgangagerðar, þar er einungis gerð tillaga áfram um þær u.þ.b. 10 milljónir kr. sem gætu verið inni á vegáætluninni sjálfri til ráðstöfunar við undirbúnings jarðgangagerða. Verði ekki lagt fram fé á þessum vettvangi mun í sjálfu sér ekkert gerast, þá mun þetta bara tefjast. En ég kem að þessum tillögum síðar, og sömuleiðis að styrkingu dreifikerfis í sveitum.

Þessi atriði öll sem við drögum fram eru til áréttingar um það mikilvægi og þær þungu áherslur sem verður að gera. Það þarf að grípa til aðgerða í byggðamálum en ekki bara tala, álykta og safna skýrslum.

Herra forseti. Á þskj. 353 gerum við einnig grein fyrir því að við viljum afla tekna á móti þeim útgjöldum sem við leggjum til og verður nánar rakið síðar. Við leggjum líka fram áherslur okkar í utanríkismálum, alþjóðamálum og löggæslumálum sem fram koma á þskj. 353.

Herra forseti. Við viljum líka draga fram þær áherslur sem lúta að sveitarfélögunum, við viljum draga fram áherslur sem þau standa frammi fyrir þegar þau eru að leysa til sín félagslegar eignaíbúðir og geta síðan ekki losnað við þær til baka á viðhlítandi verði og lenda í miklum halla. Þetta er orðið alvarlegt vandamál víða um land og ber að taka á. Við minnumst á málefni fatlaðra, geðfatlaðra barna, Framkvæmdasjóð fatlaðra o.s.frv. Þetta teljum við afar mikilvæga málaflokka sem vísa veginn fyrir þær áherslur sem við viljum leggja inn í samfélagið. Við leggjum líka áherslu á bættar almenningssamgöngur og þar þarf virkilega að taka á. Sérleyfishafar og aðrir sem koma að þeim málum standa nú frammi fyrir alvarlegum hlutum og eru að komast í greiðsluþrot.

Á þskj. 355, herra forseti, drögum við fram áherslur okkar í umhverfismálum og verður mælt fyrir þeim frekar síðar.

Herra forseti. Ég vil mæla fyrir brtt. á þskj. 354 við frv. til fjárlaga fyrir árið 2000, sem lýtur að skerðingarákvæði 6. gr., þ.e. að við 6. gr. falli 2.--4. tölul. brott. þannig að sú skerðing sem þar er lögð á Framkvæmdasjóð fatlaðra verði felld niður og sjóðurinn fái eðlilegt fjármagn eins og kveðið er á um.

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að það eigi að gæta aðhalds í ríkisfjármálum, það beri að standa vörð um að ekki þenjist allt út, það beri að halda verðbólgu niðri og stöðugu verðlagi. En það markmið og sú vinna má ekki bitna stöðugt á þeim sem minnst mega sín. Hún má ekki leiða til byggðaröskunar, að fólk flytji unnvörpum úr byggðum sínum og skilji þar eftir bæði verðmæti og samfélag í vanda af stjórnvaldsástæðum einum saman. Við viljum því að jafnframt því sem unnið er að jöfnuði og hagsæld sé líka hugað vandlega að því hvernig við skiptum þjóðarauðnum, hvernig við höfum áhrif á atvinnu og búsetuskilyrði þjóðarinnar, allra þegna landsins, stórra og smárra, ungra sem aldinna.