Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 16:04:38 (2705)

1999-12-10 16:04:38# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þm. að ef við fengjum að véla um þetta tveir saman þá mundum við sennilega ná nokkuð góðu landi með það enda veit ég, af fyrri kynnum af hv. þm., að hann er vel meinandi í slíkum efnum. Ég hefði aldrei ráðið hann til þeirra starfa á sínum tíma að fræða upp börn nema fyrir það að ég treysti honum og þekkti til hans. Ég mun hafa verið einn af fyrstu vinnuveitendum hv. þm. sem ungs og upprennandi leiðbeinanda á íþróttasviðinu.

Hitt vil ég biðja hv. þm. um að taka ekki formann sinn svo bókstaflega eða algjörlega sér fyrir leiðtoga að hann taki að fara með klisjur hans um að sá sem hér talar sé svo óskaplega neikvæður og á móti öllum hlutum. Það fer hv. þm. illa. Formaður Framsfl. hefur sem kunnugt er komist að þeirri niðurstöðu að sá sem hér stendur sé ekki aðeins á móti framförunum, það hafa allir vitað lengi. En að ég sé líka á móti himninum og framtíðinni, ég hygg að lengra verði ekki gengið þurrum fótum. Þetta dæmir sig meira og minna sjálft og fer hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, 5. þm. Suðurl., sem er vænn drengur, fremur illa að tönnlast á svona klisjum.

Staðreyndin er sú að ég er óforbetranlegur bjartsýnismaður að eðlisfari með tröllatrú á framtíðinni. Hitt er rétt, sem greinilega hefur farið dálítið inn fyrir skinnið á þeim í Framsfl., að ég er líka ekkert feiminn við það að vera á móti því sem ég er á móti. Ég læt það ráða afstöðu minni, hvort ég er með eða á móti hlutunum, en ekki hinu að það sé eitthvað til að skammast sín fyrir að vera stundum á móti hlutunum. Ef ég tel að Framsfl. sé á villibraut og standi fyrir breytingum á samfélaginu sem séu ekki til góðs, þá er ég á móti þeim og ég er maður til þess.