Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:06:23 (2715)

1999-12-10 17:06:23# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ef við tökum þessa hugsun hv. þm. eilítið lengra blasir eftirfarandi við: Ef það á að láta forstöðumenn taka pokann sinn þegar þeir standa sig ekki þá hljóta menn að vera sammála um það að það eigi líka að láta ráðherra taka pokann sinn ef þeir standa sig ekki. Í því tiltekna máli, sem við ræðum um hér, blasir það við og er upplýst af hæstv. heilbrrh. á fjárlaganefndarfundi, að í maí vissi hún af því að við blasti ,,massíf framúrkeyrsla á fjárlögum``, svo notuð séu hennar eigin orð, hjá yfir hundrað stofnunum og það gerðist ekki nokkur hrærandi hlutur það sem eftir lifði árs. Það þykir mér, herra forseti, benda til þess að hæstv. heilbrrh. hafi alls ekki staðið í stykkinu. Mig langar að vita, herra forseti, hvaða skoðun hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur á því.

Það er rétt að það komi fram að minni hlutinn mun óska eftir því að ráðuneytin leggi fram útfærðar hugmyndir sínar í þessum efnum milli 2. og 3. umr. Það er svo meiri hlutans að taka ákvörðun um hvort hann vill verða við þeirri ósk. Við viljum ekki taka ábyrgð á þessu, herra forseti. Við teljum að eins og þetta er upp lagt af hv. þm. meiri hlutans haldi þetta ekki. Þær reglur sem hv. þm. orti um í ræðu sinni halda heldur ekki nægilega vel. Hv. þm. sagði ,,við verðum að gera samninga um fjárframlög og framvindu reksturs viðkomandi stofnana``. Herra minn trúr, herra forseti. Eru fjárlögin ekki ígildi samnings, á ekki að halda fjárlög? Við þurfum líka, segir hv. þm., að skerpa ábyrgð forstöðumanna og segja þeim að halda sig innan fjárlaga. Herra minn trúr, svaraði hann ekki þessu sjálfur? Hann sagði ,,menn eiga að halda lög`` og þeir hafa ekki haldið lög, það er alveg rétt. Kannski má velta fyrir sér hugmynd hans um að setja sérstakar reglur um yfirdrátt hjá ríkisféhirði. Kannski er það hið haldbesta í málinu. Klárt er hins vegar, herra forseti, að hér stöndum við saman í forinni, hvort heldur er stjórnarliðið eða stjórnarandstaðan, og verðum að hjálpa hver öðrum að komast upp úr þessu. Það gengur náttúrlega ekki að verið sé að spreða með þessum hætti milljörðum skattborgaranna fram úr heimildum þegar menn sáu hvert stefndi, herra forseti.