Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:20:37 (2740)

1999-12-10 20:20:37# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:20]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Til að skýra hvað ég átti við þegar ég minntist á almenningssamgöngur í ræðu minni áðan þá get ég tekið dæmi af Suðurlandi. Mér finnst athugandi fyrir Sunnlendinga að skoða hvort Selfoss, Hveragerði, Eyrarbakki, Stokkseyri, Hella og Hvolsvöllur geti ekki komið sér upp samgöngukerfi sem hefði um leið sérleyfi og tengdi þessi svæði við Reykjavík. Þetta væri sameiginlegt verkefni ríkisins og sveitarfélaganna á Suðurlandi. Ég get ekki séð að þessi litlu sveitarfélög sem nú berjast við að halda uppi menntun og þjónustu á þessum svæðum geti staðið ein undir sérleyfinu, sem er í raun upp á styrk ríkisins komið, og samgöngum sem eru nauðsynlegar upp á atvinnuuppbyggingu svæðanna.