Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:34:19 (2752)

1999-12-10 20:34:19# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:34]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller þekkir náttúrlega mjög vel alla þessa samninga, enda þáv. formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ég deili ekki um aðstæðurnar. Það var sannarlega vá fyrir dyrum þegar hjúkrunarfræðingar ætluðu að ganga út af spítölunum og eitthvað þurfti að gera. En það afsakar ekki að fjárlögin skuli hafa verið þverbrotin. Það er mjög alvarlegt. Fjárlögin gerðu ráð fyrir að samningar mundu hugsanlega geta orðið einhvers staðar á bilinu 5--10%. Framgangssamningar áttu aldrei að kosta neitt. Þeir áttu að vera hagræðing innan sjúkrahúsanna en þegar upp er staðið er þetta allt miklu meira en um var talað.

Ég deili ekki um þörfina, við þurftum sannarlega að halda sjúkrahúsunum gangandi. Við þurfum að hafa góða hjúkrunarfræðinga og allt voru þetta mjög frambærileg rök en við stöndum frammi fyrir því að lög eru lög, fjárlög eru fjárlög og það má ekki fara fram úr öðruvísi en leyfi sé fyrir hendi.