Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:36:40 (2754)

1999-12-10 20:36:40# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:36]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera í miklum slag út af þessu við hv. þm. Ástu Möller. Við vitum að þetta fór úr böndunum. Það viðurkenna það allir að þegar einstakar stéttir innan hjúkrunargeirans geta hækkað allt upp í 60% þá hefur eitthvað meira en lítið farið úr böndunum. Ef meðalhækkun er 37--40%, þá er það miklu meira en aðrir höfðu fengið. Það er meira en gert var ráð fyrir.

Ég deili ekki um að mjög mikil þörf var fyrir einhverjar launabætur fyrir hjúkrunarfræðinga, heilbrigðisstéttirnar og læknana. Spurningin er aðeins um hvernig það var gert. Við þurfum svo sannarlega á góðum hjúkrunarfræðingum og læknum að halda. Ég sé ekkert eftir peningunum en spurningin er um aðferðina.