Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:14:01 (2929)

1999-12-15 11:14:01# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður en ég held að nauðsynlegt sé að menn átti sig aðeins á því hvað hér er um að ræða. Það er alls ekki verið að falla frá neinum þeim framkvæmdum sem menn eru að tíunda að séu mjög mikilvægar. Ég vil benda á að það var löngu tímabært að ráðast í endurbætur á Þjóðminjasafni Íslands og vil benda hv. þm. á ef þeir vilja kynna sér málefni þess að átta sig á því hvaða stórvirki hefur verið unnið til að koma munum þess í varanlega og góða geymslu í Kópavogi. Þær miklu framkvæmdir sem þar hafa farið fram skapa algerlega nýjar aðstæður til allrar þjóðminjavörslu í landinu og núna er verið að vinna að því að gerbreyta öllu þjóðminjasafnshúsinu og leggja á ráðin um hvernig það nýtist til framtíðar. Til þess þurfa menn að gefa sér tíma og það þarf að gera svo viðunandi sé og standa glæsilega að því. Samhliða því sem við verjum þessum fjármunum þá þarf lengri tíma en menn ætluðu til að vinna að því verki til að það verði gert sómasamlega. Það er engin vanvirða við Þjóðminjasafnið að það skuli vera lokað á næsta ári vegna þess að verið er að búa það undir að þjónusta alla þjóðina á komandi öld mun betur en þar hefur verið gert til þessa.

Þegar menn ræða um það hvort standa hefði átt öðruvísi að með hliðsjón af Reykjavík sem menningarborg á næsta ári með viðgerðum á húsum, þá mega menn ekki gleyma því að úr þessum sjóði hefur verið veitt mikið fé til að gera safnahúsið þannig úr garði að það standi undir merkjum sem þjóðmenningarhús, en það verður opnað 20. apríl á næsta ári, og verður liður í menningarborginni Reykjavík og merkilegt framlag ríkisins fyrir utan þá fjármuni sem við leggjum til menningarverkefnanna, merkilegt framlag til byggingarsögunnar og menningarsögunnar og hlutverks Reykjavíkur sem höfuðborgar og menningarborgar að endurreisa þetta hús sem er einnig merki um heimastjórnina frá 1904 og merki um þann stórhug sem menn sýndu í upphafi aldarinnar við nýbyggingar og stórbyggingar. Og að gera lítið úr því að við leggjum ekki okkar af mörkum í þágu menningarborgarinnar af ríkisins hálfu, þjóðmenningarhúsa og menningarhúsa finnst mér mjög ósanngjarnt við þessa umræðu. Hér er verið að gera of lítið úr þeim hlut sem ríkið lætur að sér kveða að þessu leyti og alveg ástæðulaust að draga upp þá mynd þegar þetta mál er til umræðu eins og ríkissjóður sé að halda að sér höndum þó að staðið sé þannig að verki að menn ætla að draga úr þenslu og skapa skynsamlegar forsendur fyrir efnahagsstjórninni.

Varðandi framkvæmdir úti á landsbyggðinni fyrir fé úr sjóðnum, þá höfum við stig af stigi og skipulega verið að auka fjárveitingar úr sjóðnum til landsbyggðarinnar. Í Reykholti er verið að vinna að því stórverkefni. Verið er skapa þar alveg nýjar aðstæður til menningarstarfsemi með fé úr sjóðnum. Við höfum notað fé úr sjóðnum til að byggja upp á Héraði, á Skriðuklaustri og skapa þar algerlega nýjar aðstæður. Á Ísafirði, til Edinborgarhússins, og á fleiri stöðum, erum við að leggja fram fé úr sjóðnum til að skapa menningarlegri aðstæður og til endurbóta húsa. Þannig mætti lengi telja. Hins vegar er það svo að lög um sjóðinn mæla fyrir um að ekki er unnt að ráðast í nýbyggingar. Ekki er heimilt að nota sjóðinn til að ráðast í nýbygginar. Sjóðinn ber að nota til gera við menningarbyggingar og skapa betri aðstöðu í menningarhúsum sem eru fyrir hendi og hann hefur vissulega komið að góðum notum þar og mun gera áfram þrátt fyrir þá skerðingu sem hér er um að ræða og ástæðulaust að skilja þannig við málið eins og einhver gífurleg vá sé fyrir dyrum með varðveislu menningararfsins eða stöðu menningarbygginga þó að þessar ráðstafanir séu gerðar sem hér eru kynntar.