Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:26:07 (3034)

1999-12-15 21:26:07# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:26]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er aldeilis ekki rétt. Það er alveg fjarstæðukennd fullyrðing eins og ég sagði áðan að halda því fram. Það er reyndar mjög varhugavert að vera að halda því að fólki að einhver sérstök pattstaða sé í þessum efnum. Ríkissjóður hefur auðvitað alltaf þann möguleika að setja fjármagnið inn í Seðlabankann. Þá kallar það fjármagnið úr umferð.

Með því að borga upp lán fyrir þetta fé er peningunum haldið í umferð. Það er hlutlaus aðferð gagnvart peningamagninu sjálfu. Það eykur ekki við það en hins vegar væri hægt að draga úr því með því að setja peningana í bankann. Ef menn væru aðeins að hugsa um að taka peningamagn úr umferð þá mundu þeir alltaf setja peningana inn í Seðlabankann.

En af hverju erum við þá að borga upp lán innan lands? Það er vegna þess að við erum með því að búa í haginn, spara okkur vaxtagreiðslur í framtíðinni. Við erum að nota féð til að spara okkur kostnaðinn af vöxtunum í framtíðinni. Það hefur þegar komið fram að við erum nú þegar að spara okkur 2 milljarða í vaxtagjöldum, ef ég man rétt, á næsta ári miðað við það sem var árið 1998.