Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:33:37 (3052)

1999-12-15 23:33:37# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GIG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:33]

Gunnar Ingi Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 og fyrir þann nýliða sem hér stendur er það bæði skemmtileg og óvænt reynsla að taka þátt í slíku starfi. Óvænti hluti reynslunnar er að mínu mati sýnu athyglisverðari og er ég að tala um þann sérkennilega flausturshátt sem mér hefur fundist einkenna meðferð frv. sjálfs og þó sérstaklega forsendur þess undanfarinn sólarhring.

Herra forseti. Mér finnst ég ekki taka of djúpt í árinni þó ég segi að síðasti sólarhringur hafi einkennst af ófaglegum vinnubrögðum þar sem tímaþröng og óviðunandi hraði hefur einkennt starfið og gert okkur þingmönnum Frjálslynda flokksins ómögulegt að kynna okkur margar nýjar og breyttar forsendur fjárlagafrv. Við eigum ekki setu í fjárln. en það, herra forseti, á ekki að gera okkur ókleift að kynna okkur þau mál sem eru lögð fyrir hv. Alþingi til afgreiðslu.

Herra forseti. Ef sjúkrastofnanir heilbrigðisþjónustunnar störfuðu með þessum hætti efast ég um að þeim tækist nokkru sinni að útskrifa heilbrigt fólk. Hér er á ferðinni þess konar agaleysi í vinnubrögðum að mér datt aldrei í hug áður en ég kom hingað að ég mundi kynnast slíku á hinu háa Alþingi og mér þykir þetta miður.

Með hliðsjón af því sem ég hef sagt mun ég ekki fjalla um aðra þætti frv. en þá er snerta þær tillögur sem ég á aðild að og hafa verið lagðar fram nú breyttar við 3. umr. Ég mun koma inn á tillögurnar sjálfar síðar. En til að lýsa betur bakgrunni þessara tillagna og forsendum ætla ég enn og aftur að koma inn á þann hluta íslenska velferðarkerfisins sem þær spanna.

Í höfuðdráttum má segja að íslenska velferðarkerfið sé gott kerfi. En gallar þess eru þó alvarlegir og það eru einmitt þeir sem gera þessu annars ágæta kerfi okkar ókleift að þjóna tilgangi sínum. Við höfum áður á hinu háa Alþingi rætt um íslenska velferðarkerfið. Það sem gerir íslenska velferðarkerfið að mörgu leyti gott í höfuðatriðum er í raun og veru ekki það almannatryggingakerfi sem hið opinbera stendur fyrir heldur eru það söfnunarlífeyrissjóðir starfsgreinanna sem koma þar inn. Það er einnig aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar sem gerir það að verkum að kerfið er í aðalatriðum gott. Ef maður horfir til framtíðar er hægt að halda því fram að framreiknuð útgjaldabyrði vegna lífeyrisskuldbindinga á árunum 2020--2040 sé með hagstæðasta móti fyrir íslenska þjóð þegar borið er saman ástandið hér við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

En gallarnir í íslenska kerfinu eru m.a. þeir að hér er lágur lífeyrir almannatrygginga og lífeyririnn er tekjuviðmiðaður. Það er að sumu leyti hættulegt að tala um tekjutengingu því greiðslur í lífeyrissjóði almennt eru auðvitað tekjutengdar. En greiðslur úr almannatryggingum eru tekjuviðmiðaðar og allt of mikið. Hér eru lágir sjúkradagpeningar, lág skattleysismörk og lágar barnabætur.

Ef maður kíkir á bak við þessa helstu galla og athugar hvað það er sem veldur því að við stöndum frammi fyrir þeim gerum við okkur grein fyrir því við skoðun málsins að í samanburði við önnur lönd greiðum við einna minnstan hluta þjóðartekna í velferðarmál. Stuðningur velferðarkerfisins við barnafjölskyldur á Íslandi er frekar lítill í samanburði við önnur lönd. Ef maður skoðar þróun launa og þróun hámarksbóta almannatryggingakerfisins undanfarin ár kemur í ljós að hámarksbæturnar hafa dregist verulega aftur úr og á tímabilinu frá 1995--1999 má gera ráð fyrir því að það vanti upp undir 18--20% til þess að lífeyrisþegar standi jafnfætis launþegum.

Til samanburðar má geta þess að í Danmörku er óskertur grunnlífeyrir rúmar 43 þús. kr. á mánuði samanborið við 16.800 kr. hér á landi. Auk þess getum við bent á í samanburðinum að sjúkradagpeningar, eins og ég hef nú áður minnst á í þessum ræðustóli, eru hér á landi u.þ.b. 20% af verkamannalaunum en í samanburðarlöndunum milli 70 og 100% af verkamannalaunum. Summan af þessari lýsingu er sú að við höfum hér á landi fátækt sem er meiri og alvarlegri en hjá þeim samanburðarlöndum sem við viljum miða okkur við og höfum til hliðsjónar.

Hvaða fólk erum við að tala um sem er í þessari stöðu? Þetta er fólk sem byggir afkomu sína fyrst og fremst á lífeyri úr almannatryggingakerfinu og þetta er fólk sem hefur sjúkradagpeninga úr almannatryggingum til þess að lifa af og þetta er fólk á öllum aldri, bæði ungt fólk sem er öryrkjar, ungt fólk sem hefur veikst og hefur ekkert annað en sjúkradagpeninga til að lifa af og auk þess eru hér auðvitað ellilífeyrisþegar.

Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að þetta er afskaplega afmarkaður hópur sem við erum að tala um og við erum ekki að tala um það fólk hér á landi sem hefur lent í miklu basli og jafnvel í fátækt vegna þess að það hefur orðið gjaldþrota eftir ýmiss konar brask. Við erum ekki að tala um svokallaða plastkortaskuldara, sem hafa keypt ýmislegt á raðgreiðslum og farið illa fjárhagslega, og við erum heldur ekki að tala um það fólk sem hefur safnað geysilegum skuldum með yfirdrætti hjá lánastofnunum. Við erum að tala um venjulegt fólk, venjulegt íslenskt fólk sem þarf að snúa hverri einustu krónu hvern einasta dag í vangaveltum um það hvort það hafi nóg fram að næstu mánaðamótum. Við erum ekki að tala um fólk sem tekur þátt í skuldasöfnun í bankakerfinu. Við erum að tala um fátækt fólk sem verður að neita sér um flestallt sem við gerum kröfu til. Við erum að tala um fólk sem á í erfiðleikum með að kaupa jólagjafir handa ættingum og vinum og við erum að tala um fólk sem hefur jafnvel brotnað niður á sál og líkama vegna fátæktar og vegna þeirrar stöðu í þjóðfélaginu að hafa verið sett til hliðar og stimplaðir út. Þetta er fólkið sem við erum að tala um.

Við erum að tala um fólk sem er komið í þannig stöðu í íslensku þjóðfélagi að það hefur orðið að nokkurs konar þjóðarskömm. Ég er að tala um mjög alvarlegt mál. Við erum að tala um þessa skömm hjá fimmtu ríkustu þjóð heims en öllum virðist vera sama.

[23:45]

En hvað um viljann? Eru menn tilbúnir til að gera eitthvað til þess að koma til móts við þetta fólk? Það ástand sem ég hef verið að lýsa hefur verið þekkt lengi og menn hafa gert tilraunir til þess að skoða vandamálið. Í Morgunblaðinu í apríl 1999 í viðtali við formann tryggingaráðs, Bolla Héðinsson, segir, með leyfi forseta:

,,Endurskoðun almannatryggingakerfisins hefur nú staðið í a.m.k. hálfan annan áratug án þess að nokkur niðurstaða sé í sjónmáli.`` 15 ára skoðun hefur ekki skilað neinu. Þurfum við fleiri rannsóknir?

Nýlega kom út bók sem við höfum rætt á hinu háa Alþingi og margir hv. þingmenn hafa tekið þátt í að ræða um. Með leyfi forseta langar mig til þess að taka smábút út úr þeirri bók til þess að kasta ljósi á það sem við erum að tala um. Þar segir að Ísland hafi ákjósanlegt fyrirkomulag lífeyrismála sem muni skila öllum þorra vinnandi manna tiltölulega góðum lífeyri á eftirlaunaárunum þegar kerfið, þ.e. hið starfstengda lífeyriskerfi, hefur náð fullum þroska eftir 10--15 ár.

Við erum að tala um hóp sem býr við sára fátækt á Íslandi í dag, við erum að tala um tímabil sem stendur kannski ekki meira en 10--15 ár en við tímum samt ekki að koma til hjálpar vegna þess að þetta fólk getur bara átt sig og það skiptir engu máli, herra forseti, þótt fólkið safnist saman einu sinni á ári fyrir utan og krefjist þess af Alþingi að eitthvað verði gert. Það virkar ekki. Ég hef hvergi fundið í drögum að fjárlögum næsta árs nokkurn skapaðan hlut sem bendir til þess að hæstv. ríkisstjórn ætli að koma til móts við þetta fólk sem ég tala um hér. Enn fremur segir, með leyfi forseta, í þessari bók:

,,Svigrúm þjóðarinnar til þess að leysa málið er meira en almennt meðal hagsælu vestrænu þjóðanna.`` --- Það er verið að tala um góðærið á Íslandi. Og enn fremur, með leyfi forseta: --- ,,Það væri ekki sérlega íþyngjandi fyrir þjóðarheildina að bæta hag þeirra.``

Þetta er allt saman hárrétt. Það væri ekkert sérlega íþyngjandi fyrir þjóðarheildina að bæta hag þessa fólks. Það er samt enginn áhugi og ekkert sem bendir til þess að það verði gert.

En spurningin er þessi: Getum við gert þessar umbætur sem hér er verið að kalla á? Svarið er, herra forseti: Já, auðvitað getum við það. Auðvitað getum við lagfært stöðu þessa jaðarhóps í íslensku þjóðfélagi. Þetta er aðeins spurning um vilja. Þetta er aðeins spurning um vilja hv. Alþingis því peningarnir eru til. Það vitum við.

Það mun vera verulegur afgangur í rekstri þjóðarheimilisins og sá afgangur er margfeldi af því sem við viljum nota til þess að bæta lífeyris- og sjúkratryggingar þessa hóps.

Ég ætla ekki að fara aftur í gegnum þær tillögur sem við höfum lagt fram. Hv. þingmenn hafa áður minnst á þær tillögur. Það kom fram áðan að hv. þm. Jón Bjarnason hefur gerst meðflutningsmaður okkar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að brtt. þar sem gerð er tillaga um að tekjutrygging ellilífeyrisþega hækki strax um 13% og tekjutrygging örorkulífeyrisþega um tæplega 13% strax á þessu ári sem fyrsta skref af fjórum til að ná því marki að hækka hámarksgreiðslur til þess hóps sem hér er verið að ræða um um ein 18% þannig að hópurinn nái því upp sem hann hefur glatað á undanförnum árum í samanburði við almenna launþega hér á landi. Ég fagna því sérstaklega að fleiri hafi lagst á árarnar í þessu máli því að ekki veitir af.

Við höfum einnig lýst því hér hvernig við viljum ná þeim fjármunum fram sem þarf til þess að taka þetta fyrsta skref og í grófum dráttum er það þannig að við teljum að það megi nota u.þ.b. 653 millj. af áðurnefndum afgangi sem er náttúrlega margfeldi af þeirri upphæð og einnig viljum við samanber brtt. Guðjóns A. Kristjánssonar og mína lækka útgjöld ráðuneytanna um 0,5% til þess að mæta því sem upp á vantar. Þessi niðurskurður á ráðstöfunarfé ráðuneytanna gerir það að verkum, auk þess að klára þetta kostnaðardæmi, að við höfum þar holla ábendingu til ráðuneytanna um nauðsyn þess að sýna aðhald og varkárni í útgjöldum vegna þess hættuástands sem kann að vera fram undan og hefur komið margoft fram hjá hv. þm.

Að lokum þetta, herra forseti. Eins og ég hef áður sagt er um mjög alvarlegt ástand að ræða hjá afmörkuðum jaðarhóp í íslensku þjóðfélagi sem býr við sára fártækt. Sá sem hér stendur lítur svo á að það væri til háborinnar skammar ef ekki verður í fjárlögum næsta árs komið til móts við þarfir fólksins, helst þannig að það gæti sem allra fyrst unnið upp það tap sem það hefur þurft að þola á undanförnum árum vegna þess að það hefur ekki fengið að eiga hlutdeild í íslensku góðæri.